spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaHjálmar, Haukur og Kjartan áfram hjá Haukum

Hjálmar, Haukur og Kjartan áfram hjá Haukum

Haukar ætla sér að gera betur á næstu leiktíð í Dominos deild karla en liðið sem endaði í tíunda sæti á síðustu leiktíð samdi við þrjá leikmenn á dögunum.

Þeir Hjálmar Stefánsson, Haukur Óskarsson og Kjartan Steinþórsson hafa allir endurnýjað samninga sína við liðið um ár og taka því slaginn á ný með Hafnfirðingum á komandi leiktíð.

Á heimasíðu Hauka segir: „Kjartan kom til Hauka seint á síðustu leiktíð og kláraði tímabilið með liðinu. Hann ól manninn í Grindavík en hefur einnig leikið með KFÍ. Hjálmar og Haukur þurfa minni kynningu en þeir hafa spilað allan sinn feril með Haukum og verið burðarásar liðsins undanfarin ár.“

Hjálmar og Haukur hafa verið viðloðandi A-landsliðið síðustu misseri og því gríðarlega mikilvægt fyrir Hauka að semja við þessa öflugu leikmenn. Hjálmar hafði síðustu vikurnar verið orðaður við einhver lið í deildinni og því góðar fréttir fyrir Hafnfirðinga að slegið hefur verið á þær sögusagnir hér með.

Israel Martin tók við þjálfun liðsins í sumar af Ívari Ásgrímssyni. Auk þess hefur liðið endurheimt Emil Barja frá KR.

Fréttir
- Auglýsing -