Tindastóll tók á móti Breiðablik b í fyrstu deild kvenna í körfuknattleik í Síkinu á Sauðárkróki í dag.
Blikastúlkur voru mættar á Krókinn með aðeins sex leikmenn eftir stórt tap á Akureyri í gær. Heimastúlkur fóru frekar rólega inn í leikinn en Inga Sólveig skoraði fyrstu 9 stig Stóla án þess að Blikar næðu að svara. Aðrar fóru svo að bæta við en áhorfendur þurftu að bíða í rúmar 7 og hálfa mínútu eftir fyrstu stigum Blika. Fyrsti leikhluti endaði 32-5 og ef einhver spenna var fyrir leik var hún löngu gufuð upp. Stólastúlkur unnu annan leikhluta 25-7 og staðan í hálfleik því 57-12 fyrir heimastúlkur. Þrátt fyrir mikla yfirburði í stigaskorun voru heimastúlkur ekki að ná að spila mikið í gegnum svæðisvörn gestanna en þar sem þær höfðu yfirburði í fráköstum líka komu alltaf frí skot á endanum.
Seinni hálfleikurinn var spilaður meira af skyldurækni en Blikastúlkur hresstust í lokin og voru ekki langt frá því S að vinna síðasta fjórðunginn, lokatölur 93-41
Allir leikmenn Tindastóls fengu mínútur í leiknum og flestar náðu að setja stig á töfluna þó maður hefði viljað sjá oftar rennt í gegnum kerfi. Jayla var stigahæst með 32 stig og Eva Rún kom næst með 15. Hjá Blikum voru María Vigdís og Inga Sigríður með 11 stig hvor eð aðrar minna þó allar hafi komist á blað.
Mynd: Rebekka Hólm setur þrist fyrir Stóla
Umfjöllun, myndir / Hjalti Árna
Tindastóll: Jayla Nacole Johnson 32/9 fráköst, Eva Rún Dagsdóttir 15/7 fráköst/9 stoðsendingar, Inga Sólveig Sigurðardóttir 11/7 fráköst, Emese Vida 10/12 fráköst/6 stoðsendingar/5 varin skot, Rebekka Hólm Halldórsdóttir 8/4 fráköst, Kristín Halla Eiríksdóttir 6, Klara Sólveig Björgvinsdóttir 5/4 fráköst, Fanney María Stefánsdóttir 3, Snædís Birna Árnadóttir 3, Nína Karen Víðisdóttir 0/6 fráköst.
Breiðablik b: María Vigdís Sánchez-Brunete 11, Inga Sigríður Jóhannsdóttir 11/9 fráköst, Selma Pedersen Kjartansdóttir 7/5 stolnir, Hera Magnea Kristjánsdóttir 6/7 fráköst, Þórdís Rún Hjörleifsdóttir 4/7 fráköst, Ivy Alda Guðbjargardóttir 2.