Hildur Björg Kjartansdóttir skrifaði í dag undir samning við Val um að spila með liðinu í Dominosdeildinni á næsta tímabili.
Hildur Björg hefur þrátt fyrir ungan aldur skipað sér í flokk með okkar allra bestu leikmönnum í körfuboltanum. Hún varð Íslandsmeistari með uppeldisfélagi sínu Snæfell vorið 2014 og hélt eftir það í háskólaboltann í Bandaríkjunum hvar hún spilaði með Texas-Rio Grande Valley skólanum. Á árunum 2017 til 2018 lék hún í 2. deildinni á Spáni með annars vegar Leganés og hins vegar Celta de Vigo. Hún kom heim á síðasta tímabili og lék með KR þar sem hún var einn af lykilleikmönnum liðsins. Hildur hefur tvisvar verið valin körfuknattleikskona Íslands árin 2017 og 2019. Hildur á að baki 32 landsleiki með A landsliði Íslands.

Ólafur Jónas um Hildi: Hildur er auðvitað þekkt stærð í íslenskum körfubolta og mun því augljóslega styrkja liðið og auka breiddina. Hennar hæfileikar koma líka til með að auka víddina í okkar leik og mun gera okkur kleift að hafa fjölbreytta möguleika bæði í vörn og sókn. Ég hlakka mikið til með að vinna með Hildi á komandi tímabili.
Hildur Björg um Val: Ég er spennt fyrir að koma inn í jafn flottan klúbb eins og Val og taka slaginn með þeim. Það verðir gaman að spila aftur í rauðu! Ég vona að ég geti hjálpað liðinu að ná sem bestum árangri á næsta tímabili. Sumarið er tíminn til að bæta sig og ég hlakka til að æfa og spila með liðsfélögunum eftir skrítinn endi á vetrinum.
Á meðfylgjandi myndum má sjá Hildi, Ólaf Jónas Sigurðsson þjálfara og Grím Atlason stjórnarmann í KKD Vals.
(Myndir Valur körfubolti)



