Akureyringar eru þessa dagana að safna liði fyrir komandi leiktíð í Dominos deild karla. Í dag var tilkynnt að liðið hafði samið við Srdan Stojakovic.
Srdan er serbneskur framherji sem leikið hefur með Fjölni síðustu tvö tímabil við góðan orðstýr. Á síðustu leiktíð í Dominos deildinni var hann með 20 stig að meðaltali í leik, tók 5,8 fráköst og var með 4,1 stoðsendingu.
Á heimasíðu Þórs segir:
Srdan stóð sig vel í báðum innbyrðisviðureignum Þórs og Fjölni á síðasta tímabili. Þegar liðin mættust í höllinni í fyrri umferðinni skoraði kappinn 23 stig og tók 11 fráköst. Hann var einnig öflugur þegar Þór lagði Fjölni í Dalhúsi í seinni umferðinni þá skoraði hann 31 stig og tók 7 fráköst.
Hjálmar Pálsson formaður körfuknattleiksdeildar sagði að Srdan væri leikmaður sem menn hafi farið að ræða við í lok tímabilsins. “Okkur leist vel á leikmanninn sem er ekki bara frábær leikmaður heldur hinn besti liðsfélagi og hvers manns hugljúfi”.



