Haukar hafa samið við Frosta Valgarðsson um að leika með liðinu á yfirstandandi tímabili í fyrstu deild karla.
Frosti kemur aftur til uppeldisfélags síns í Haukum frá Ármanni í Bónus deildinni þar sem hann lék á fyrri hluta þessa tímabils, en þrátt fyrir að vera aðeins 18 ára gamall hefur hann verið viðloðinn meistaraflokksbolta síðan tímabilið 2022/23. Þá hefur Frosti einnig verið hluti af yngri landsliðum Íslands á síðustu árum.
Tilkynning:
Frosti Valgarðsson hefur samið um að leika með liði Hauka út tímabilið 2026/2027. Frosti er uppalinn Haukastrákur og þekkir vel til hópsins í mfl.ka. og spilað með þeim flestum upp alla yngri flokkana.
Frosti fór á venslasamning í fyrra við lið Ármanns sem komst upp í Bónusdeildina sl.vor. Hann hóf leik í haust með Ármanni en ákvað um áramótin að söðla um og koma aftur heim. Frosti hefur þegar leikið nokkra leiki með Haukum í 1.deildinni og átt góða leiki og hentar liðinu vel.
Pétur Ingvarsson hafði þetta að segja: “Frosti er uppalinn hér í Haukum sem er frábært en það mikilvægt að fá Haukamenn heim aftur sem eru tilbúnir að berjast fyrir klúbbinn. Frosti er mjög góð viðbót í hópinn og er metnaðarfullur leikmaður sem vill verða enn betri í körfubolta, það er það sem við viljum”.
Við bjóðum Frosta velkominn heim að berjast í 1.deildinni og gera allt til að fara upp um deild.



