spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaAbby Beeman hetja Grindavíkur í Síkinu

Abby Beeman hetja Grindavíkur í Síkinu

Tindastóll tók á móti Grindavík í Bónus deild kvenna í körfuknattleik í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld. Stólar hafa unnið góða sigra í deild og bikar í Síkinu, á KR, Val og Njarðvík.

Leikurinn fór vel af stað hjá gestunum sem komust í 0-7 áður en heimakonur komust á blað. Þá tóku Stólastúlkur á sinn eigin sprett og jöfnuðu í 9-9 með þrist frá Oceane. Stólar komust svo í 16-12 með fjórum stigum frá Brynju Líf og þrist frá Mörtu og Eva Rún sá til þess að munurinn var 5 stig að loknum fyrsta leikhluta með góðum þrist. Alejandra kom Stólum svo 8 stigum yfir í byrjun annars leikhluta en gestirnir úr Grindavík svöruðu fyrir sig og voru aldrei langt undan. Mikil barátta og fremur lítið skorað í öðrum leikhluta en Abby Beeman sá til þess að jafnt var í hálfleik 36-36.

Heimakonur mættu ekki alveg vakandi til leiks í seinni hálfleik og voru fljótlega komnar fimm stigum undir. Þær vöknuðu þó og tóku á sprett um miðjan leikhlutann með 3 þristum í röð og komust yfir. Þristur frá Oceane kom þeim í 8 stiga forystu þegar tæp mínúta var eftir en þann tíma nýttu gestirnir til að skora 4 stig eftir einstakan klaufagang hjá Maddie í lokin. Staðan 68-64 fyrir lokaleikhlutann. Stólar komu ákveðnar til leiks í 4. leikhluta og 5 stig frá Mörtu héldu þeim í seilingarfjarlægð til að byrja með. Grindavík jafnaði þó áður en leikhlutinn var hálfnaður og eftir það var allt í járnum. Maddie Sutton jafnaði í 84-84 þegar um 25 sekúndur voru eftir og Þorleifur tók leikhlé. Það var svo að sjálfsögðu Abby sem fékk boltann og hún lék sér með hann í rúmar 20 sekúndur áður en hún tók smá hliðarskref á móti 2 varnarmönnum Stóla og smellti niður þrist á lokasekúndunni! Ótrúlegur leikmaður.

Hjá heimakonum var Marta langstigahæst með 31 stig en tapaði 4 boltum ansi klaufalega. Oceane setti 14 stig og Maddie 13 stig, 11 fráköst og 9 stoðsendingar. Hjá gestunum var Abby með 27 stig og átta fráköst.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -