Ríkjandi íslandsmeistarar Hauka tóku á móti Ármann í Bónusdeild kvenna fyrr í kvöld. Það er skemmst frá því að segja að heimakonur tóku strax stjórn á leiknum, létu hana aldrei af hendi og unnu að lokum auðveldan sigur, 104-73.
Það sást fljótt í fyrsta leikhluta að Haukakonur ætluðu aldrei að leika sér að bráðinni. Þær mættu einbeittar, agressívar og tilbúnar að láta allar sóknir gestana vera erfiðar enda lauk fyrsta leikhluta 33-18 og ljóst í hvað stefndi. Ef ein tölfræði lýsir leiknum þá eru það töpuðu boltarnir. Ármannskonur töpuðu 20 boltum í leiknum gegn 9 hjá Haukum og manni leið eiginlega eins og þeir hefðu verið enn fleiri hjá Ármenningum. Haukar héldu svo áfram uppteknum hætti í öðrum leikhluta og staðan í hálfleik var 60-37 og leiknum í raun lokið.
Í síðari hálfleik fóru Haukar lítið upp úr þriðja gír en það skipti ekki máli. Úrslitin voru þegar ráðin og heimakonur lönduðu þægilegum sigri.
Amandine Justine Toi skoraði 33 stig fyrir Hauka en Nabaweeyah Ayomide McGill skoraði 31 stig fyrir Ármann. Eftir leikinn eru Haukar í öðru sæti deildarinnar en Ármenningar sitja í því níunda.



