Út er kominn nýjasti þátturinn af Aukasendingunni, en gestur þáttarins er fjölmiðlamaðurinn Heisi Högg úr Þorlákshöfn.
Farið er yfir fréttir vikunnar, síðustu umferð í Bónus deild karla, VÍS bikarkeppnina, orðið á götunni, bestu kana Bónus deilda karla- og kvenna og margt, margt fleira. Þáttinn er hægt að nálgast á öllum helstu hlaðvarpsveitum undir nafni Körfunnar.
Undir lok síðasta þáttar eru ræddir hverjir séu bestu kanar Bónus deildar karla. Listann er hægt að sjá hér fyrir neðan og umræðuna er hægt að hlusta á í Aukasendingunni.
20 bestu kanar Bónus deildarinnar með umsögnum úr Aukasendingunni
- Remy Martin – Keflavík Ég hef reynt að sannfæra sjálfan mig um að Remy Martin eigi ekki heima í efsta sætinu á þessum lista, en mér hefur bara ekki tekist það. Það sem ég sá í bikarleiknum á móti Val sannfærði mig um að þessi gæi er enn þá algjörlega einstakur (unique) leikmaður í þessari deild. Við hugsuðum öll það sama síðast þegar hann spilaði með Keflavík á þarsíðustu leiktíð; að hann sé einfaldlega langbesti sóknarmaður deildarinnar. Hann hefur þannig áhrif á andstæðinga sína að öll vikan fyrir leik fer í það hvernig eigi að stoppa hann. Hann vann bikarinn fyrir Keflavík síðast þegar hann var hérna og við trúðum því öll að hann gæti farið með liðið alla leið og unnið þann stóra ef hann hefði ekki meiðst. Ef þú ert með einhverja leið til að sannfæra mig um annað, endilega hafðu samband. Remy Martin er besti Kaninn í deildinni.
- Justin James – Álftanes Hann kom inn í lið Álftaness á síðustu leiktíð á annarri löppinni, en vann sig hægt og rólega inn í deildina og sýndi öllum hvers hann er megnugur. Algjörlega stórkostlegur sóknarmaður. Hann hefur ekki enn spilað leik með Álftnesingum á þessari leiktíð en samkvæmt mínum heimildum er hann nokkuð heill heilsu. Ég þarf ekkert að sjá hann spila til þess að setja hann í 2. sæti þessa lista þar sem hann hefur afrekað það að eiga 31 stiga leik í NBA-deildinni. Algjörlega frábært að fá þennan gæja aftur í deildina.
- Khalil Shabazz – Grindavík Fyrir síðasta tímabil skoðuðu ansi margir þjálfarar Khalil Shabazz en enginn tók sénsinn á honum fyrr en Njarðvík samdi við hann. Þar var hann stórkostlegur. Hann samdi svo við Grindavík í haust og hefur verið frábær í allan vetur. Hann hefur haft hljótt um sig í fyrstu þremur leikhlutunum en mætir svo í þeim fjórða og einfaldlega lokar leikjum. Hann er góður í flestum, ef ekki öllum leikjum. Hann á leiki í vetur þar sem hann hreinlega tekur lið Grindavíkur á herðarnar og sækir sigur.
- Dedrick Basile – Tindastóll Hefur átt frábæran feril á Íslandi. Hann hófst hjá Þór Akureyri, þaðan fór hann í Njarðvík, næst til Grindavíkur og nú er hann hjá Stólunum. Hann fær pottþétt betri samning með hverju tímabilinu og er eftirsóttur af öllum liðum landsins. Hann hefur komist ansi nálægt því að vinna þann stóra en ekki tekist það enn þá. Hefur hann það sem til þarf?
- Keyshawn Woods – Valur Fyrst um sinn meikaði það fullkomlega „sense“ að Keyshawn Woods skrifaði undir hjá Val. Hann féll eins og flís við rass að liðinu og liðsfélögunum; leikmaður sem þú treystir 100% með boltann þegar mikið liggur við. Hann hefur sannað það oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Hann er með titil í farteskinu sem hjálpar honum klárlega með staðsetninguna á þessum lista.
- Jakob Falko – ÍR Hann er í miklu uppáhaldi hjá íslenskum körfuboltaáhugamönnum, enda eðlilega stórskemmtilegur áhorfs. Hann er á sínu öðru tímabili með ÍR og er þannig leikmaður að öll lið deildarinnar myndu íhuga að fá hann í sínar raðir. Ég treysti skotinu hans ekki 100% og hann hefur aðeins látið minna fyrir sér fara í undanförnum leikjum, en það hefur ekki beint bitnað á leik ÍR-liðsins. Ef Falko vildi, þá gæti hann leikandi spilað í efstu deild á Íslandi út ferilinn.
- Seth LeDay – Stjarnan Hann fór ekkert sérstaklega af stað með Stjörnunni og manni leið eins og þetta væri ekkert sérstaklega úthugsað „pick up“. Hann kemur í sömu stöðu og Shaquille Rombley spilaði á síðustu leiktíð og fólk fer því ósjálfrátt að bera þessa tvo ólíku leikmenn saman. Seth LeDay hefur vaxið með hverjum leiknum og með heimkomu Hilmars Henningssonar virðist hann passa enn þá betur inn í þetta ógnarsterka Stjörnulið.
- Kenneth Doucet – KR Kom beint úr háskóla vestanhafs til KR og býr þessi ungi maður greinilega yfir miklum hæfileikum. Þvílíkur sprengikraftur og fínasta skot, en hann er augljóslega enn þá að finna út úr því hvers konar körfuboltamaður hann er. Hann á eftir að eiga frábæran feril í framtíðinni en fær nú að hlaupa af sér hornin í Vesturbænum.
- Daryl Morsell – ÍA Hóf leiktíðina með Keflavík og var búist við miklu af honum. Hann er frábær varnarmaður og býr yfir mikilli íþróttamennsku, en er með „mölbrotið“ skot sem háir spilamennsku hans mikið. Honum var sagt upp hjá Keflavík og var pikkaður upp af ÍA. Hann hefur ekkert farið neitt afleitlega af stað en heldur ekkert frábærlega. Hann gæti vaxið mikið með endurkomu Gojko Zuzum.
- Jacoby Ross – Þór Hefur sýnt frábæra frammistöðu inn á milli og unnið leiki upp á eigin spýtur, en hann hefur einnig týnst á löngum köflum og átt erfitt uppdráttar. Virðist alls ekki njóta sín innanvallar.
- Brandon Averette – Ármann Hóf leiktíðina með Njarðvík en var rekinn þaðan. Að vera rekinn vegur þungt á þessum lista. Hann var pikkaður upp af Ármanni og verður spennandi að sjá hvernig hann spjarar sig þar. Alltof passífur sóknarlega að mínu mati og ég treysti honum ekki fyrir boltanum þegar leikurinn er undir.
- Luwane Pipkins – Njarðvík Hefur aðeins spilað einn leik á Íslandi og var kannski eðlilega ekkert frábær í honum. Miðað við fyrri verk hans á ferlinum er ekkert sem „öskrar“ á mann að hann verði framúrskarandi í vetur. Sjáum hvað setur; hann er klárlega líklegasti hástökkvari listans.



