Út er kominn nýjasti þátturinn af Aukasendingunni, en gestur þáttarins er fjölmiðlamaðurinn Heisi Högg úr Þorlákshöfn.
Farið er yfir fréttir vikunnar, síðustu umferð í Bónus deild karla, VÍS bikarkeppnina, orðið á götunni, bestu kana Bónus deilda karla- og kvenna og margt, margt fleira. Þáttinn er hægt að nálgast á öllum helstu hlaðvarpsveitum undir nafni Körfunnar.
Undir lok síðasta þáttar eru ræddir hverjir séu bestu kanar Bónus deildar kvenna. Listann er hægt að sjá hér fyrir neðan.
Topp 10: Bandarískir leikmenn Bónus deildarinnar
- Brittany Dinkins: Einfaldlega drottning bandarískra leikmanna í deildinni. Hún var langbest á síðustu leiktíð og var sorglega nálægt því að landa þeim stóra. Það hefur lítið reynt á hana í vetur, en þegar liðið hefur virkilega þurft á henni að halda hefur hún stigið upp og sýnt okkur hvers hún er megnug.
- Abby Beeman: Var stórkostleg í liði Hamars/Þórs á síðustu leiktíð. Hún er líklega sá leikmaður sem hækkaði hvað mest í launum á milli leiktíða og hún er hverrar krónu virði. Þungvopnuð sóknarlega og býr yfir mikilli íþróttamennsku.
- Reshawna Stone: Kani sem Valsliðið hefur leitað að allt frá því að Kiana Johnson lyfti titlinum með liðinu árið 2023. Frábær skytta og virðist vera algjör leiðtogi.
- Molly Kaiser: Byrjaði svakalega vel. Hún býr yfir þeim eiginleika að þótt hún sé ekki besta skyttan, þá kemst hún á hringinn nánast hvenær sem hún vill. Það verður áhugavert að fylgjast með framhaldinu eftir að KR bætti við sig öðrum bakverði.
- Krystal Freeman: Byrjaði svakalega illa en hefur unnið mest á af öllum „könum“ deildarinnar og fundið fínan stöðugleika undanfarið. Gæti orðið enn betri þegar líður á tímabilið.
- Jadakiss Guinn: Átt marga frábæra leiki í vetur og hefur aðeins einu sinni skorað færri en 14 stig. Hún hefur átt þrjá 30+ stiga leiki en hana vantar aðeins upp á einhvers konar „alpha“ áru.
- Keishana Washington: Hefur verið vonbrigði að mínu mati. Ég heyrði af þessum leikmanni í sumar og bjóst við því að hún yrði fullkominn „fit“ í deildina hér heima.
- Maddie Sutton: Átt flottan feril á Íslandi en endaði einhvern veginn á Króknum eftir síðasta tímabil. Hún er erlendur leikmaður sem er ekki besti leikmaðurinn í liði sem er ekki titilbaráttulið.
- Ruth Sherrill: Stór og sterkur miðherji sem er vonandi betri en leikmaðurinn sem var fyrir hjá Stjörnunni. Hefur farið vel af stað en við höfum enn lítið séð til hennar.
- Kylie Lucas: Lítið séð af henni en hún virðist vera hörku varnarmaður með dálítið „brotið“ skot.



