spot_img
HomeFréttirNjarðvíkingar sigruðu og fá andrými frá botnbaráttunni

Njarðvíkingar sigruðu og fá andrými frá botnbaráttunni

Það var lítill gæða körfuknattleikur í kvöld þegar Njarðvíkingar fengu Skagamenn í heimsókn í botnslag Bónusdeildar karla. Fyrir leik áttu Njarðvíkingar á hættu að sogast svo sannarlega í alvarlega botn baráttu en þeir grænklæddu náðu þeir að hrista úr erminni sigur gegn ÍA. 84:71 varð niðurstaða kvöldsins og tölurnar segja lítið sem ekkert um gæði varnarleiks liðanna heldur meira um slök gæði körfuknattleiks í vissulega miklum baráttu leik.

Njarðvíkingar frumsýndu nýjan leikstjórnandann Luwane Pipkins. Luwane þessi með fína ferilskrá en fór hægt um í kvöld og ósanngjarnt kannski að dæma hann af þessum fyrstu mínútum í deildinni. Þrátt fyrir þá fullyrðingu vonum við svo sannarlega Njarðvíkinga vegna að hann eigi meira inni. Skagamenn söknuðu Gojko Zudzum í kvöld sem var borgaralega klæddur á bekknum og munar vissulega um minna hjá þeim í baráttu um sæti sitt í deildinni.

Leikurinn hófst á þann hefðbundna hátt að jafnræði var með liðunum og glögglega sást að Njarðvíkingar voru að pússa inn sinn nýja leikstjórnanda í Luwane fyrr nefndum. Það var svo hinn króatíski Sven Smajlagic sem að setti snögga tvö þrista og hóf þar með að byggja upp forskot Njarðvíkinga sem voru heil 8 stig í hálfleik.

Í seinni hálfleik hélt baráttan áfram og hart var leikið og mikið dæmt. Dómarar leiksins áttu í fullu fangi með að halda leiknum réttu megin við línuna og voru á þröskuldi þess að missa þetta í “spól” þar sem mikill hiti myndaðist innan vallar hjá leikmönnum. Njarðvíkingar hinsvegar megnið af seinni hálfleik með ágætis tök á leiknum og komu sér mest í 19 stiga forskot. Þarna hélt undirritaður að Skagamenn hefðu endanlega verið lagðir en þeir gáfust ekki upp og óþægileg tilfinning hlýtur að hafa farið um Njarðvíkinga þegar þeir náðu að minnka muninn niður í 9 stig þegar um 5 mínútur voru til loka leiks.

Löng saga stutt þá héldu Njarðvíkingar út og lönduðu gríðarlega mikilvægum sigri og eftir kvöldið eru þeir í 9. sæti deildarinnar og slitu sig örlítið frá fallbaráttunni og um leið aðeins einum sigri frá úrslitakeppnissæti. Skagamenn eru neðstir í deildinni með aðeins 3 sigra í deildinni í vetur líkt og Ármann, en Ármenningar með innbyrðis sigur gegn ÍA.

Af einstaklingum þá var Domynikas Milka með sterkan leik þegar hann skoraði 23 stig og hirti 15 fráköst. Dwayne Lautier kom honum næstur með 19 mjög svo þröngvuð stig. Hjá Skagamönnum Ilija Djokovic stigahæstur með 16 stig og 9 stoðsendingar.

Bæði lið eiga verðugt verkefni í næstu umferð þar sem Njarðvíkingar fara norður í Skagafjörð og etja kappi gegn Tindastól á meðan Skagamenn renna á forseta slóðir og leika gegn Álftanes.

Fréttir
- Auglýsing -