Stjarnan fékk Keflavík í heimsókn í Ásgarð í kvöld en bæði liðin unnu góða sigra í bikarnum í vikunni og eru komin áfram. Keflavík vann fyrri leik liðana á tímabilinu en Stjarnan hafði unnið fimm leiki í röð, höfðu endurheimt Hilmar Henningsson og Keflvíkingar voru án Remy Martin. Hljómar eins og uppskrift af auðveldum stjörnusigri.
Það kom líka á daginn. Stjörnumenn komu flljúgandi út úr startholunum og kaldir, koníakslausir Keflvíkingar hefðu allt eins geta verið þrír inni á vellinum. Slíkir voru yfirburðir heimamanna sem komust í 20-3 og grafskrift leiksins í raun og veru ljós. Staðan að loknum fyrsta leikhluta 36-15 og undirritaður fór að velta því fyrir sér hvort tíma hans yrði betur varið í uppvaskinu.
Keflavík klóraði örlítið í bakkann nokkrum sinnum í leiknum en þó aldrei nóg til þess að láta Stjörnuna svitna. Stjörnumenn voru betri á öllum sviðum, allan leikinn.
Lokatölur í Ásgarði 18 stiga heimasigur, 116-98, sem er ekki nóg til þess að vinna upp innbyrðis stigamuninn milli liðana ef svo ólíklega vildi til að þau yrðu jöfn að stigum eftir að deildarkeppninni líkur, en Keflavík vann fyrri leik liðana með 21 stigi.
Orri Gunnarsson lék við hvurn sinn fingur og skoraði 30 stig fyrir heimamenn en hjá gestunum var Egor Koulechov atkvæðamestur með 23.
Stjarnan: Orri Gunnarsson 30, Seth Christian LeDay 23/12 fráköst/7 stoðsendingar, Hilmar Smári Henningsson 18/4 fráköst, Luka Gasic 12/7 fráköst, Pablo Cesar Bertone 11, Ægir Þór Steinarsson 9/4 fráköst/5 stoðsendingar, Giannis Agravanis 9, Bjarni Guðmann Jónson 4, Aron Kristian Jónasson 0, Jakob Kári Leifsson 0, Atli Hrafn Hjartarson 0, Björn Skúli Birnisson 0.
Keflavík: Egor Koulechov 23/5 fráköst/5 stoðsendingar, Hilmar Pétursson 19/5 fráköst/7 stoðsendingar, Mirza Bulic 14/10 fráköst, Craig Edward Moller 10/8 fráköst, Ólafur Björn Gunnlaugsson 10/5 fráköst, Jaka Brodnik 8/4 fráköst, Valur Orri Valsson 7, Halldór Garðar Hermannsson 7, Eyþór Lár Bárðarson 0, Frosti Sigurðarson 0, Nikola Orelj 0, Daniel Eric Ottesen Clarke 0.



