Abby Beeman splæsti í þrennu þegar Grindavík jafnaði Njarðvík og KR á toppi deildarinnar í kvöld. Grindavík vann öflugan endurkomusigur á Njarðvík í HS Orku höllinni í Grindavík eftir að gestirnir höfðu farið á kostum í fyrri hálfleik. Lokatölur 89-79 Grindavík í vil.
Emilie Hesseldal var enn fjarri góðu gamni í liði Grindavíkur en hún hefur glímt við meiðsli lungann af þessari leiktíð.
Glíma kvöldsins fór af stað með látum, Krista Gló Magnúsdóttir opnaði leikinn með Njarðvíkurþrist og grænar fóru eiginlega á flug eftir það. Nystrom var einnig heit í liði Grindavíkur en þegar Helena Rafnsdóttir kom af Njarðvíkurbekknum fengu gestirnir góða vítamínsprautu og leiddu 26-35 að loknum fyrsta leikhluta. Nóg skorað og líflegt um að litast. Helena öflug af bekk gestanna með 12 stig í fyrsta leikhluta og Nystrom 11 hjá Grindavík.
Tveir þristar með skömmu millibili frá Kristu og Hersler breyttu stöðunni í 33-48 og Njarðvík sem var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik leiddi 42-53 í leikhléi. Helena Rafnsdóttir var með 15 stig í liði Njarðvíkinga en Nystrom 18 í liði Grindavíkur.
Gular heimakonur mættu með hávaða og læti inn í síðari hálfleikinn og opnuðu þriðja með 15-2 áhlaupi og unnu svo leikhlutann 28-11 og leiddu 70-64 fyrir fjórða leikhluta. Óhætt er að segja að Abby Beeman hafi tekið leikinn yfir í síðari hálfleik en í kvöld var hún með myndarlega þrennu þar sem hún skoraði 25 stig, tók 10 fráköst og gaf 12 stoðsendingar.
Snemma í fjórða leikhluta kom Grindavík muninum upp í tíu stig, léku þétta og góða vörn og náðu að halda öflugum leikmönnum Njarðvíkur á borð við Hersler og Dinkins í skefjum sem saman skoruðu alls 12 stig og hefur samtala þeirra oftar en ekki verið nokkuð ríkulegri fyrir Njarðvíkinga. Ólöf Rún rak svo smiðshöggið á leikinn þegar hún kom Grindavík í 87-74 með rúma mínútu eftir lokatölur reyndust svo 89-79.
Með sigrinum eru Njarðvík og Grindavík bæði með 20 stig í deildinni en Grindavík komið með betri stöðu innbyrðis þar sem Njarðvík vann fyrri viðureign liðanna aðeins með einu stigi. Það er orðin ansi spennandi baráttan um toppsætið áður en deildinni verðu skipt upp þar sem Njarðvík, Grindavík og KR hafa öll 20 stig eftir umferðina.
Beeman var vafalítið besti leikmaður vallarins í kvöld með þessa huggulegu þrennu sína en Nystrom átti líka frábæran leik með 30 stig, 7 fráköst og 5 stoðsendingar og Isabella Ósk gerði sínum gömlu liðsfélögum í Njarðvík skráveifu með tvennu upp á 16 stig og 12 fráköst. Hjá Njarðvík var Helena Rafnsdóttir atkvæðamest með 22 stig og Danielle gerði 19 stig og gaf 11 stoðsendingar.
Grindavík: Ellen Nystrom 30/7 fráköst/5 stoðsendingar, Abby Claire Beeman 25/10 fráköst/12 stoðsendingar, Isabella Ósk Sigurðardóttir 16/12 fráköst, Ólöf Rún Óladóttir 11, Farhiya Abdi 4/6 fráköst, Þórey Tea Þorleifsdóttir 3, Telma Hrönn Loftsdóttir 0, Eyrún Hulda Gestsdóttir 0, María Sóldís Eiríksdóttir 0, Ólöf María Bergvinsdóttir 0, Jenný Geirdal Kjartansdóttir 0.
Njarðvík: Helena Rafnsdóttir 22/4 fráköst, Danielle Victoria Rodriguez 19/11 fráköst/9 stoðsendingar, Krista Gló Magnúsdóttir 11, Sara Björk Logadóttir 9, Brittany Dinkins 7/5 fráköst, Paulina Hersler 5/9 fráköst, Inga Lea Ingadóttir 4, Hulda María Agnarsdóttir 2, Alexandra Eva Sverrisdóttir 0, Aníta Rut Helgadóttir 0, Helga Jara Bjarnadóttir 0, Kristín Björk Guðjónsdóttir 0.



