spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaÍR fór létt með að leggja lánlausa Njarðvíkinga

ÍR fór létt með að leggja lánlausa Njarðvíkinga

ÍR lagði Njarðvík örugglega að velli, 84–59, þegar liðin mættust í Bónusdeild karla í Skógarseli. Eftir jafnan upphafskafla tóku heimamenn öll völd á vellinum og létu gestina aldrei nálgast þegar á leið leikinn.

Fyrsti leikhluti var nokkuð jafn og liðin skiptust á að hafa forystuna, en í öðrum leikhluta fóru ÍR-ingar smám saman að síga fram úr. Heimamenn hertu varnarleik sinn, spiluðu af meiri yfirvegun í sókn og nýttu færin sín betur. Það skilaði sér í þrettán stiga forystu í hálfleik, 48–35.

Í liði ÍR var Tsotne Tsartsidze afar öflugur og skilaði 17 stigum og 11 fráköstum, auk þess að vera sterkur í báðum teigum. Tómas Orri Hauksson átti einnig frábæran leik, skoraði 17 stig og var með afar góða skotnýtingu, á meðan Hákon Örn Hákonarson stjórnaði leiknum af yfirvegun og lagði sitt af mörkum með 12 stigum og 7 stoðsendingum. Þá kom Emilio Banic sterkur af bekknum með 11 stig.

Hjá Njarðvík reyndi mest á Dominykas Milka, sem skoraði 16 stig og tók 10 fráköst, og Dwayne Lautier sem var með 14 stig og 5 fráköst. Það vantaði hins vegar upp á stuðning annarra leikmanna, sérstaklega þegar leið á leikinn.

ÍR-ingar komu af miklum krafti inn í þriðja leikhluta og héldu áfram þar sem frá var horfið fyrir hlé. Heimamenn hittu þá sérstaklega vel utan af velli, boltinn gekk hratt á milli manna og Njarðvíkingar áttu fá svör. Forskot ÍR óx jafnt og þétt og mest náðu þeir tuttugu stiga forystu í leikhlutanum. Staðan fyrir fjórða leikhluta var 67–49 og gestirnir virtust hálf ráðalausir.

Í fjórða leikhluta var svo um algjöra yfirburði heimamanna að ræða. ÍR lét boltann rúlla vel, skapaði sér færi víðs vegar af vellinum og hélt áfram að refsa fyrir mistök gestanna. Njarðvíkingar voru ráðviltir í sínum leik, töpuðu boltanum ítrekað og áttu í miklum vandræðum með skotnýtingu sína. Satt best að segja var þetta algert hrun í leik Njarðvíkur, á meðan ÍR sigldi leiknum örugglega í höfn.

Tölfræðin undirstrikaði yfirburði ÍR. Heimamenn skutu mun betur úr leik og voru sterkari í fráköstum, 46 gegn 44. ÍR tapaði 16 boltum í leiknum, á meðan Njarðvík tapaði 21 bolta, og sá munur, ásamt betri skotnýtingu og flæði í sókn, reyndist gestunum dýrkeyptur.

Tölfræði leiks

Myndasafn


Fréttir
- Auglýsing -