Topplið Grindavíkur opnaði nýja árið með háspennusigri í IceMar-Höllinni eftir framlengdan leik gegn Njarðvík. Lokatölur 123-124 þar sem kenndi ýmissa grasa. Njarðvíkingar glutruðu niður 15 stiga forystu í fjórða leikhluta og gestirnir komu leiknum í framlengingu með lygilegum hætti. Í framlengingunni fékk Njarðvík síðustu sóknina en misstu boltann og Grindavík styrkti stöðu sína á toppi deildarinnar.
Fyrsti leikur beggja liða eftir stórubrandajól, sannkölluð rússíbanareið þar sem Shabazz tók rúman hálftíma í að finna fyrsta þristinn sinn á gamla heimavellinum en sá fór heldur betur á kostum á lokasprettinum. Shabazz lauk leik í kvöld með 34 stig, 8 fráköst og 7 stoðsendingar.
Njarðvíkingar leiddu lungann úr leiknum, 53-51 í hálfleik og 83-71 eftir þriðja leikhluta. Í þeim fjórða fengu Brandon og Milka sínar fimmtu villur og voru ekki með í framlenginunni. Það munaði um minna fyrir heimamenn. Sér í lagi þar sem margir voru á sama máli um að fimmta villan á Milka hafi verið helst til vel útlátin jólagjöf til Grindavíkur en þar var um að ræða brot að mati dómara í þriggja stiga skoti.
Njarðvíkingar frumsýndu nýjan leikmann í kvöld en sá er króatískur bakvörður og heitir Sven og virðist kunna sitthvað fyrir sér en á vissulega eftir að slípa sig betur saman við hópinn.
Það verður að teljast Grindvíkingum til hróss að berja sig aftur inn í leikinn eftir að hafa lent 15 stigum undir í fjórða leikhluta. Njarðvíkingar að sama skapi súrir í broti að hafa ekki nýtt tækifærið og gert út um leikinn.
Til að koma leik kvöldsins í framlengingu fékk Shabazz víti með tvær sekúndur eftir af leiknum og staðan 113-110. Shabazz setti fyrra vítið og þrykkti svo tuðrunni í hringinn í síðara skotinu þar sem Semple náði sóknarfrákastinu og skoraði, 113-113 og því framlengt.
Áhugasömum til upplýsinga mega leikmenn fara í frákast um leið og vítaskotmaður hefur sleppt skotinu, það þarf ekki að bíða með að stíga inn í teiginn uns boltinn snertir hringinn en um það urðu einhver rökræðuhöldin í IceMar-höllinn í kvöld, maður er alltaf að læra.
Framlengingin var jöfn og spennandi og Njarðvíkingar fengu lokasóknina einu stigi undir til þess að landa sigrinum en Lautier dripplaði sér í ógöngur og Grindvíkingar unnu boltann og þar með leikinn – sveiflur í kvöld sem lyktaði með því að Grindvíkingar héldu á brott með stigin tvö.
Semple bætti við 27 stigum hjá Grindavík í kvöld og 12 fráköstum og þá var Mortensen með 22 og Kane 21. Hjá Njarðvík var Lautier með 32 stig og 14 fráköst en fór illa að ráði sínu í lokasókninni. Brandon bætti við 24 stigum og Veigar 23, Svenn hinn nýji kom svo af bekknum með 14 stig og 8 fráköst.



