Stjarnan og Álftanes mættust í nágrannaslag í Ásgarði. Fyrir leik var Stjarnan jöfn KR í 5. – 6. sæti en Álftanes í 7. – 9. sæti ásamt ÍR og Njarðvík.
Þetta er annað skiptið sem liðin mætast þessa vikuna, en síðasti leikur þeirra var í bikarkeppninni síðastliðinn mánudag þar sem Stjarnan hafði betur, 94 – 74.
Álftanes byrjar leikinn betur og ná 20 stiga forystu þegar tvær mínútur eru eftir af fyrsta leikhluta en Stjörnumenn sækja á muninn og endar leikhlutinn í stöðunni 23 – 35, Álftanesi í vil. Stjörnumenn byrja 2. Leikhluta vel og vinna forskot Álftnesinga hratt niður. Liðin skiptast á körfum en undir lok hálfleiks nær stjarnan forystunni og eru hálfleikstölur 51 – 48, Stjörnunni í vil.
Stjarnan byrjar seinni hálfleikinn betur en mótherjar sínir og ná hægt og rólega að auka forystuna. Álftnesingar eru þó aldrei langt undan og endar 3. leikhluti 85 – 76, fyrir Stjörnunni. Stjörnumenn byrja 4. leikhluta af krafti og ná 15 stiga forystu eftir tvær þriggja stiga körfur í röð. Munurinn helst í 10 -15 stigum þar til í blá-lokin þegar Álftnesingar komast aftur inn í leikinn. Stjarnan stendur áhlaupið af sér og vinna að lokum með fjórum stigum. Lokatölur 108 – 104, fyrir Stjörnunni.
Ade Murkey skoraði 24 stig og tók 10 fráköst fyrir Álftanes.
Orri Gunnarsson setti niður 21 stig fyrir Stjörnuna.
Stjarnan fer því inn í hátíðirnar með þrjá sigra í röð á meðan Álftanes hefur tapað síðustu fimm leikjum sínum í deildinni.
Eftir áramót fá Stjörnumenn KR í heimsókn og Álftanes mætir Ármanni í Laugardalnum.



