Ég tók framhaldsnámið mitt í Kellogg School of Management við Northwestern-háskóla í Bandaríkjunum. Þess vegna fygldist ég, og fylgist ég enn, með helstu fréttum af körfuboltaliði Northwestern. Liðið spilar í Big10-deildinni og er eiginlega sögufrægt lið frekar en farsælt. Þar til fyrir fáum árum var það eiginlega stærsta lið sem hafði aldrei komist í marsfárið og aðeins örfáir, held meira að segja bara einn, leikmaður liðsins hafi átt einhvern feril í NBA.
Fyrir nokkrum árum las ég frétt um Pat Spencer. Pat var besti lacrosse-leikmaður Bandaríkjanna og hafði á fjögurra ára ferli unnið allt sem hægt var að vinna í háskóla-lacrosse og var valinn fyrstur í nýliðavali Lacrosse-deildarinnar bandarísku að námi loknu. Hann ákvað þó að gerast ekki atvinnumaður í Lacrosse. Þess í stað nýtti hann möguleika sinn á að sinna íþróttum í háskóla í eitt ár til viðbótar og ganga til liðs við körfuboltalið Northwestern.
Northwestern-liðið var kannski ekki besta háskólaliðið í Bandaríkjunum en það er gott lið og að keppa í Big10 er alvöru verkefni. Kannski var ekkert skrýtið að þrátt fyrir að hann elskaði körfubolta að hafa sett fókusinn á lacrosse. Þegar hann byrjaði í menntaskóla var hann nefnilega bara 163 cm en að fjórum háskólaárum loknum hafði hann stækkað í 191 cm og körfubolti varð raunhæfari kostur með talsvert fleiri sentimetrum. Raunhæfari kostur, en kannski ekkert sérstaklega raunhæfur kostur hafandi ekkert verið í körfu í mörg ár.
Þegar hann ákvað að gefa körfunni séns höfðu fáir trú á honum, hvað þá á því að hann gæti endað í NBA. Körfuboltatíminn í Northwestern gekk þó vel. Hann skoraði að meðaltali 10,4 stig, tók 4,1 frákast og gaf 3,9 stoðsendingar í leik, með 43,6 prósenta skotnýtingu. Þetta var fínasta frammistaða en alls ekki neitt sem ætti að gefa væntingar um að verða NBA-leikmaður.
Okkar maður gafst þó ekki upp á körfuboltadraumnum.
Hvað svo?
Þegar langt var liðið á tímabilið með Northwestern var öllu slaufað vegna Covid og Pat hélt til Þýskalands til halda körfuboltadraumnum lifandi. Að spila körfu í þýsku deildinni er enginn stórsigur og hann vildi ná lengra. Hann var ósáttur við eigin frammistöðu og fannst hann ryðgaður, skotin voru ekki að detta eins og hann vildi og líkaminn var ekki alveg þar sem hann vildi að hann væri. Hann gafst þó ekki upp og hélt áfram að leggja hart að sér.
Með Hamburg Towers gekk ágætlega og þaðan hélt hann í harkið í G-deild NBA og spilaði fyrir venslalið Wizards. Sumir segja að það eina sem gerist í G-deildinni sé að þar deyi draumar. Tíminn þar leið hægt, draumurinn tórði þó og sumarið 2022 samdi hann til skamms tíma við Golden State Warriors. Allt í einu varð NBA draumurinn einn innan seilingar, langt umfram það sem flestir höfðu talið mögulegt. Hann lék þó ekkert í NBA fyrr en tímabili síðar.
NBA Pat
Frá þessum tíma hefur Pat leikið yfir 60 NBA-leiki. Þar hefur hann skilað að meðaltali 9 mínútum og 4 stigum í leik. Einn hans besti leikur kom í desember 2025 gegn Thunder þar sem hann skilaði 16 stigum, fjórum stoðsendingum og fjórum fráköstum og spilaði allan fjórða leikhlutann. Þá var þjálfari Warriors, Steve Kerr, sáttur.
Pat var bara ótrúlegur þarna úti. Hann stjórnaði leiknum. Hann hefur nákvæmlega allt sem þarf.
Okkar maður virðist reyndar á mikilli uppleið því af leikjum í desember hefur Pat skorað á bilinu 12–19 stig í 6 leikjum af 7. Miklu meira en hann hafði skorað til þessa. Hver veit nema hlutverkið fari stækkandi.

Ég skil þetta ekki enn
Mér finnst saga Pat Spencer enn þá fáránleg. Ég skil þetta ekki. Hversu mikill íþróttamaður þarftu eiginlega að vera til að vera ekkert í körfu á háskólaárunum, fjórum miklum mótunarárunum, en að hafa það mikla hæfileika, elju og þrautseigju til að vera kominn í NBA fjórum-fimm árum seinna?
Ég mun áfram fylgjast með honum og er spenntur fyrir því hversu langt hann nær. Hann efaðist aldrei um eigin möguleika og hvert hann gæti komist þrátt fyrir að fólk kepptist við að segja honum að þetta væri tóm vitleysa allt saman.
Ég trúi ekki öðru en að í sögu Pat Spencer felist lærdómur fyrir okkur öll. Í bókum Pat Spencer er alla vega gott að elta drauma og gefast ekki upp.



