Þór Þorlákshöfn landaði mikilvægum útisigri í Bónusdeild karla í kvöld eftir háspennusigur gegn Njarðvík 92-93 í IceMar-Höllinni. Allt var á suðupunkti í lokin og Njarðvíkingar stálu boltanum og fengu sniðskot fyrir sigrinum sem dansaði af hringnum. Gestirnir úr Þorláksöfn því búnir að finna sinn þriðja sigur í deildinni og þar með jafna nýliða ÍA að stigum.
Njarðvíkingar byrjuðu betur og leiddu 33-27 eftir fyrsta leikhluta en gestirnir frá Þorlákshöfn hertu varnarleikinn í öðrum leikhluta og unnu þær 10 mínútur 18-26 og leiddu því 51-53 í hálfleik. Það var ljóst löngu fyrir leik að bæði lið myndu selja sig dýrt fyrir stigin tvö í kvöld.

Dwayne Lautier fór fyrir Njarðvíkingum í fyrri hálfleik með 19 stig og 4 fráköst en Djordje var með 14 stig og 3 stoðsendingar í liði Þórsara. Bæði lið voru að hitta vel í þristum í fyrri, Njarðvík með 50% nýtingu (8-16) og Þórsarar með 44% nýtingu í þristum (11-25).
Heilt yfir voru Þórsarar ögn ákveðnari og vinnusamari í sínum varnarleik og náðu þannig að komast yfir og leiða í hálfleik. Gekk á einu og öðru í fyrri en það voru s.s. ágætis teikn á lofti um að spennandi síðari hálfleikur væri í vændum.
Þórsarar komu ferskari inn í þriðja leikhluta, leiddu 65-73 eftir sjö mínútna leik og komnir með 15 þrista í leiknum á 25 mínútum en þeir áttu met tímabilsins til þessa með 19 þrista niður gegn Val fyrr á leiktíðinni. Njarðvíkingar hertu róðurinn síðustu þrjár mínútur leikhlutans og minnkuðu muninn í 70-73 og þannig stóðu leikar fyrir fjórða.

Í upphafi fjórða jafnaði Brandon leikinn fyrir Njarðvík 73-73 með þrist og þar með hrukku heimamenn á stökk og breyttu stöðunni í 83-75 á tveimur og hálfrí mínútu. Þórsarar voru ekki á því að láta stinga sig af og minnkuðu muninn í 86-83 með 2.40 mín eftir af leiknum.
Næst komu þrír risa þristar frá Rafail og Ross í liði Þórsara og gestirnir komust í 92-93 með 15,4 sekúndur eftir af leiknum. Lautier fékk boltann í næstu Njarðvíkursókn og keyrði endanlínuna og skotið hans dansaði af hringnum og Njarðvíkingar allt annað en sáttir við að fá ekki villu þar.
Þórsarar héldu í sókn og Njarðvíkingar brutu og skráðu inn sína fjórðu liðsvillu með 6 sekúndur eftir af leiknum. Þór tók innkast og Njarðvík stal boltanum sem lyktaði með hraðaupphlaupi þar sem Veigar Páll brunaði fram og brenndi af sniðskoti fyrir sigrinum. Ótrúlegar vendingar og fögnuðurinn stóð ekki á sér hjá Þórsurum sem og særindin Njarðvíkingurmegin við að missa þessi tvö stig frá sér.
Það gekk á ýmsu í kvöld en Þórsarar lönduðu stigunum með því að setja m.a. 19 þrista í 46 tilraunum og jöfnuðu þar með sitt eigið þristamet í deildinni yfir flestar hittar þriggja í einum leik. Ryndar á sama tíma á Álftanesi stóðu Tindastólsmenn í ljósum logum og settu nýtt deildarmet í vetur með 20 þrista í Kaldalónshöllinni. Djordje var stigahæstur Þórsara í kvöld með 23 stig og Lanaras bætti við 19 stigum og 10 stoðsendingum. Hjá Njarðvíkingum var Lautier með 31 stig, 9 fráköst og 5 stoðsendingar og þeir Veigar og Brandon bættu báðir við 18.
Myndasafn (Gunnar Jónatans)



