spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaÍslandsmeistararnir lögðu nýliðana

Íslandsmeistararnir lögðu nýliðana

Nýliðar ÍA tóku í kvöld á móti Íslandsmeisturum Stjörnunnar í AvAir höllinn á Akranesi. 

Gengi beggja liða í fyrstu níu umferðum deildinnar hefur sennilega komið nokkuð á óvart, Skagamenn komnir með 3 sigra sem er aðeins yfir spám í upphafi tímabilsins og 4 sigrar Garðbæjinga undir væntingum flestra.  En það mætti ætla að öruggur sigur Stjörnunnar í síðustu umferð væri neistinn sem þeir hafa verið að leita að til verða að miklu báli.

Leikurinn hófst með tveimur stigum heimamanna af vítalínunni en þrír þristar í röð frá Orra Gunnarssyni komu Stjörnunni í þægilega stöðu. Stjarnan bætti svo bara við og voru komnir í 2-16 þegar heimamenn settu loksins niður þrist.  Sóknarleikur gestanna hélt áfram að ganga vel og í stöðunni 7-23 ákváðu heimamenn að prufa að stilla upp litlu liði.  Eitthvað virtist það rugla í varnarleik Stjörnunnar en í stöðunni 19-29 náðu gestirnir aftur áttum og komu stöðunni í 19-36 fyrir lok fyrsta leikhluta.


Stjörnumenn mættu miklu tilbúnari en leikmenn ÍA í annan leikhluta og byrjuðu fyrstu 67 sekúnturnar á 7 stigum gegn engu stigi heimamanna sem varð til þess að Óskar tók strax leikhlé. Skagamenn vöknuðu aðeins við það en Stjarnan sofnaði ekkert en vildu samt reyna að slökkva lífið sem var að kvikna hjá ÍA og tóku leikhlé í stöðunni 30-51.  Nokkuð jafnræði var með liðunum eftir það en Stjarnan þó alltaf aðeins á undan og leiddu í hálfleik 43-67.

Jafnræði var svo með liðunum í byrjun þriðja leikhluta.  Sama hvað ÍA reyndi þá einhvern vegin gerði Stjarnan bara nóg til að halda ÍA í þeirri þægilegu fjarlægð sem þeir náðu að byggja upp í fyrrihálfleik.  En þeir létu það svo sem ekki duga heldur bættu bara aðeins í komu muninum í 30 stig fyrir loka leikhlutann, 63-93.  Fjórði og síðasti leikhlutinn varð því bara að einhverskonar formsatriði sem þurfti að klára, ágætis tilþrif inn á milli skrítinna sókna og varna og öruggur 85-115 sigur Stjörnunnar staðfestur.

Hjá heimamönnum var Dibaji Walker stigahæstur með 20 stig og Ilija Dokovic kom næstur með 18 stig, 5 af 5 í 3ja stiga, auk þess að gefa 7 stoðsendingar. Lucien Christofis átti svo góða innkomu af bekknum með 14 stig og 6 stoðsendingar.

Hjá gestunum fór mest fyrir Orra Gunnarssyni í stigaskorinu en hann setti 24 stig og tók að auki 7 fráköst.Seth Christian Leday landaði tvöfaldri tvennu með 21 stig og 12 fráköst auk þess að gefa 6 stoðsendingar.  Ægir Þór Steinarsson gaf 15 stoðsendingar í leiknum og setti að auki 5 stig á töfluna.

Nánari tölfræði úr leiknum má finna hér

Gaman að segja frá því að:
-Stjarnan hitti úr 5 af 7 þristum sínum í fyrsta leikhluta.
-Ægir Þór Steinarsson gaf 11 stoðsendingar í fyrri hálfleik.
-alls spiluðu sjö leikmenn ÍA 10 mínútur eða meira í fyrri hálfleik.
-Stjarnan spilaði lengi vel bara á 7 leikmönnum þrátt fyrir að leiða með um 30 stigum
-allir leikmenn á skýrslu hjá IA komu við sögu í leiknum.
-bæði lið tóku 46 tveggja stiga skot í leiknum.
-bæði lið hittu 11 þristum í leiknum.
-Stjarnan rústaði frákasta keppninni 28-50.
-ÍA tapaði aðeins 12 boltum í leiknum á móti 20 töpuðum boltum hjá Stjörnunni.

Fréttir
- Auglýsing -