Grindavík lagði Hamar/Þór í HS orku höllinni í Grindavík í kvöld í 10. umferð Bónus deildar kvenna, 79-72.
Eftir leikinn er Grindavík í 2. til 5. sæti deildarinnar með 14 stig á meðan Hamar/Þór er í 10. sætinu, enn án sigurs eftir fyrstu 10 leiki sína.
Heimakonur í Grindavík voru betri á upphafsmínútum leiks kvöldsins og leiddu með 8 stigum að fyrsta fjórðung loknum. Undir lok hálfleiksins nær Hamar/Þór að koma til baka, jafna leikinn og ná í forystuna í stutta stund. Heimakonur klára þó fyrri hálfleikinn af krafti og eru skrefinu á undan, þremur stigum yfir þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 42-39.
Í upphafi seinni hálfleiksins nær Hamar/Þór áfram að vera ljár í þúfu heimakvenna. Fara þær mest fimm stigum yfir í þriðja fjórðungnum, en þegar hann er á enda eru Hamar/Þór þremur stigum yfir.
Í upphafi þess fjórða lítur allt út fyrir að Hamar/Þór ætli að gefa sér sjéns á að sigla fyrsta sigur vetrarins í höfn. Þegar um sjö mínútur eru til leiksloka leiða þær með sjö stigum. Heimakonur í Grindavík voru þá á öðru máli. Ná að snúa taflinu sér í vil og eru nokkrum stigum yfir inn í brakmínútur leiksins.
Undir lokin eru það stórar körfur frá Abby Beeman og Ellen Nystrom sem tryggja Grindavík sigurinn, 79-72, í leik sem Hamar/Þór hefði með aðeins meiri lukku svo sannarlega geta fengið eitthvað út úr.
Stigahæstar fyrir Hamar/Þór í leiknum voru Mariana Duran með 21 stig og Jadakiss Guinn með 18 stig.
Fyrir Grindavík var Abby Beeman stigahæst með 28 stig og Ellen Nystrom bætti við 15 stigum.
Áhugaverð staðreynd varðandi leik kvöldsins er sú að stigahæstu leikmenn beggja liða spiluðu með hinu liðinu á síðustu leiktíð, en þá var Abby leikmaður Hamars/Þórs og Mariana var á mála hjá Grindavík.
Viðtöl upphaflega birt á vef Víkurfrétta
Grindavík: Abby Claire Beeman 28/6 fráköst/11 stoðsendingar, Ellen Nystrom 15/10 fráköst, Farhiya Abdi 14/5 fráköst, Ólöf Rún Óladóttir 8, Isabella Ósk Sigurðardóttir 6/5 fráköst/3 varin skot, Þórey Tea Þorleifsdóttir 6, Jenný Geirdal Kjartansdóttir 2, Telma Hrönn Loftsdóttir 0, Eyrún Hulda Gestsdóttir 0, María Sóldís Eiríksdóttir 0, Ólöf María Bergvinsdóttir 0.
Hamar/Þór: Mariana Duran 21/8 fráköst/5 stoðsendingar/6 stolnir, Jadakiss Nashi Guinn 18, Jovana Markovic 17/12 fráköst, Ellen Iversen 9/11 fráköst, Jóhanna Ýr Ágústsdóttir 3, Matilda Sóldís Svan Hjördísardóttir 2, Bergdís Anna Magnúsdóttir 2, Dagrún Inga Jónsdóttir 0, Jara Björg Gilbertsdóttir 0, Andrea Ösp Gunnsteinsdóttir 0, Sólveig Grétarsdóttir 0, Guðrún Anna Magnúsdóttir 0.



