Ísland mun mæta Bretlandi kl. 16:45 í dag í Laugardalshöll í öðrum leik sínum í undankeppni HM 2027. Fyrsta leik undankeppninnar vann íslenska liðið sterkt lið Ítalíu úti í Tortona síðasta miðvikudag á meðan Bretland mátti þola tap gegn Litháen heima í London í leik sem lengi á eftir að vera í manna minnum.
Hérna er hægt að kaupa miða á leikinn gegn Bretlandi
Sögulega hefur Ísland ekki oft leikið mótsleiki gegn Bretlandi. Síðast lék liðið í tvígang við Bretland í undankeppni EuroBasket 2015. Báða leikina vann Ísland þá, heima á Íslandi þann 10. ágúst 2014, 83-70 og svo úti í Bretlandi tíu dögum seinna 20. ágúst, 71-69.
Sigrar Íslands í þeim leikjum voru stórt skref fyrir liðið að tryggja sig í fyrsta skipti inn á lokamót, en síðan þá hefur liðið leikið í þrígang á lokamóti EuroBasket og í aðeins eitt skipti síðan misst af því að tryggja sig inn á það (2022)
Tveir leikmanna liðsins á morgun voru einnig í hóp Íslands í síðasta leik gegn Bretlandi, þar skoraði Haukur Helgi Briem Pálsson 7 stig og tók 4 fráköst og Martin Hermannsson var með 2 stig og 2 fráköst af bekknum hjá Íslandi. Þá var liðsstjóri íslenska liðsins síðasta miðvikudag Ragnar Nathanaelsson einnig í liði Íslands.



