Íslenska landsliðið mun annað kvöld kl. 19:00 hefja leik í undankeppni HM27 með leik gegn Ítalíu í Tortona.
Ásamt Ítalíu og Íslandi eru í riðlinum Bretlands og Litháen, en seinni leikur þessa fyrsta glugga keppninnar er komandi sunnudag gegn Bretlandi heima í Laugardalshöll.
Íslenska liðið ferðaðist til Tortona á Ítalíu síðasta sunnudag þar sem leikur þeirra gegn heimamönnum mun fara fram fimmtudagskvöld. Íslenski hópurinn samanstendur af 12 leikmönnum.
Karfan heyrði í leikmanni íslenska landsliðsins og Jonava í Litháen Hilmari Smára Henningssyni og spurði hann út í þetta upphaf undankeppninnar og leik fimmtudagsins gegn Ítalíu.
Íslenska liðið gerði gífurlega vel í síðustu undankeppni HM og var aðeins einu skoruðu stigi frá því að tryggja sig á lokamótið, en í þeirri undankeppni lagði liðið sterk lið Úkraínu, Ítalíu og Georgíu. Varðandi þessa undankeppni sagði Hilmar Smári ,,Nýtt mót vissulega en skipulagið er nú mjög svipað. Þetta er nú sett upp alveg eins í rauninni og við erum vanir. Erum í grunnin að halda svipuðu liði og hlutverkaskipan er mjög skýr, erum orðnir reynslumeiri eftir síðustu verkefni okkar og eru leikmenn byrjaðir að þekkja hvorn annan mjög vel og vitum vel hvað virkar vel fyrir okkur og munum bara gera allt til þess að halda áfram að nýta okkar styrkleika vel og standa saman í þessu verkefni.”
Varðandi ítalska liðið, boltann sem þeir spila og möguleika Íslands sagði Hilmar ,,Þetta er nú frekar ólíkt því ítalska liði sem við kepptum til dæmis við í undankeppni fyrir EM. Nýr þjálfari og mikil rótering á leikmönnum þannig kannski erfitt að segja til um hvernig lið þeir eru. Við búumst við mjög skipulögðum körfubolta og physical vörn sem ítalir eru þekktir fyrir. Eins og ég segi þá er bara mikilvægt fyrir okkur að nýta okkar styrkleika vel, spila hratt og aggressívt eins og við erum vanir. Engin geimvísindi eða ný uppgötvun sem mun skila okkur sigri held ég, frekar bara halda i okkar gildi sem við höfum staðið fyrir í nokkur ár og reyna sækja sigur á erfiðum útivelli.”
Ísland í tveimur síðustu undankeppnum náð að vinna leiki gegn sterku liði Ítalíu. Heima í Ólafssal lagði Ísland lið Ítalíu í síðustu undankeppni HM og þá vann Ísland Ítalíu úti í Reggio Emilia í síðustu undankeppni EuroBasket. Varðandi hvað þeir sigrar gefi íslenska liðinu sagði Hilmar ,,Auðvitað hjálpar það andlegu hliðinni að margir okkar voru partur af þeim hóp sem unnu ítalina á útivelli fyrir ekki svo löngu síðan en á sama tíma breytir það ekki miklu þar sem sá sigur breytir í raun engu með hvernig næsti leikur fer. Við erum alltaf vel stemmdir og tilbúnir í hvaða andstæðing sem er.”



