Mikið var rætt, ritað, japlað, fuðrað og fleira um háttsemi DeAndre Kane í síðasta leik Grindvíkinga í Breiðholtinu en þar tók hann reiði sína meðal annars út á ruslatunnu og margir biðu spenntir eftir ákvörðun aganefndar. Einn leikur í bann var niðurstaðan og hann var í kvöld. Það skipti þrátt fyrir það engu máli en Stólar sáu aldrei til sólar og gulir Grindjánar leiddu frá fyrstu stundu.
Í fjarveru Kane steig Khalil nokkur Shabazz heldur betur upp og negldi 33 stigum í andlit ráðalausra Sauðkrækinga. Það var ekki fyrr en um miðbik fjórða leikhluta sem nokkuð líf færðist yfir norðanmenn. Það var hins vegar alltof lítið og alltof seint og Grindavík sendi Tindastól heim með 16 stiga tap í farteskinu, 91-75.
Mál manna sem voru að horfa á leikinn var að frammistaða og andleysi gestana hafi verið sjokkerandi í ljósi þess að bæði lið ætla sér titilinn. Af leiknum í kvöld má ráða að Grindavík er mun nær því heldur en Tindastóll.
Khalil Shabazz var sem fyrr segir stigahæstur í liði heimamanna með 33 stig en hjá gestunum var Dedrick Basile atkvæðamestur með 15 stig.
Grindavík: Khalil Shabazz 33/5 fráköst/7 stoðsendingar, Arnór Tristan Helgason 20, Unnsteinn Rúnar Kárason 11, Jordan Semple 10/9 fráköst/8 stoðsendingar, Daniel Mortensen 8/10 fráköst, Ragnar Örn Bragason 6/4 fráköst, Ólafur Ólafsson 3/8 fráköst, Isaiah Coddon 0, Nökkvi Már Nökkvason 0.
Tindastóll: Dedrick Deon Basile 15/8 fráköst, Taiwo Hassan Badmus 14/8 fráköst, Sigtryggur Arnar Björnsson 13, Ivan Gavrilovic 10/10 fráköst, Ragnar Ágústsson 9/4 fráköst, Davis Geks 4/7 fráköst, Adomas Drungilas 4/7 fráköst, Pétur Rúnar Birgisson 3, Júlíus Orri Ágústsson 3, Víðir Elís Arnarsson 0.



