Það var svo sem fátt um fína drætti í Njarðvíkinni í dag þegar heimamenn tóku á móti Ármann í IceMar höllinni. Njarðvíkingar fóru að lokum með sigur í þessum bragðdaufa leik með því að skora 99 stig gegn 75 stigum lánlausra Ármenninga. 10 stig skildu liðin á hálfleik.
Sem fyrr segir það var þetta engin flugeldasýning í Njarðvíkinni í kvöld. Bæði lið byrjuðu að skora grimmt en Njarðvíkingar komust strax þessu skrefi á undan þó svo að Ármann hafi vissulega náð að halda þessum mun í um 6 til 10 stig. Það var rétt í upphafi seinni hálfleiks sem að gestirnir velgdu Njarðvíkingum vel undir uggum þegar þeir náðu muninum niður í einhver 4 stig. Lengra komust þeir ekki þetta kvöldið og í fjórða leikhluta stungu heimamenn af og lönduðu mikilvægum sigri.
Njarðvíkingar gerðu vel þetta kvöldið að klára leikinn eftir að hafa orðið fyrir því áfalli að missa Mario Matasovic úr leik út veturinn í síðasta leik. Undirritaður hefði viljað sjá örlítið meiri grimmd og ákefð frá þeim sem af bekknum komu, því það er nákvæmlega það sem Njarðvíkinga mun vanta uppá það sem eftir lifir veturs.
Ármann vantar töluvert uppá það að getað landað sigri í deildinni ef tekið er mið af þessum leik í kvöld. Varnarleikurinn hreint út sagt skelfilegur og varla til staðar á tímum og svo virðast vera of margir einstaklings spilarar sem stendur. Vissulega vantar leikmann með bandarískt vegabréf og það mun líkast til breyta einhverju. En þeirra möguleiki í þessari deild er að snúa bökum saman og spila fyrir hvorn annan en ekki einungis fyrir sjálfan sig. Þetta er vissulega hægt, það sýndu ÍR-ingar í fyrra þegar alþjóð hafði spáð þeim falli eftir nokkrar umferðir en þeir tróðu sokkapörum uppí þá spekinga og fóru í úrslitakeppnina!
Af einstaklingum þetta kvöldið þá var Dwayne Lautier með 32 stig og 11 fráköst og Brandon alltaf traustur með 20 stig og 7 stoðsendingar. Hjá Ármann var Daniel Love með 17 stig þeirra skástur.



