spot_img
HomeLandsliðinEuroBasket 2027Óþarflega stórt tap í Barreiro

Óþarflega stórt tap í Barreiro

Íslenska landsliðið mátti þola tap gegn heimakonum í Portúgal í kvöld í öðrum leik sínum í undankeppni EuroBasket 2027, 100-70.

Ísland hefur því tapað fyrstu tveimur leikjum sínum, en efstar í riðli þeirra eru Serbía með tvo sigra og í öðru sætinu er Portúgal með einn sigur og eitt tap.

Fyrir leik

Leikurinn var sá annar hjá báðum liðum í undankeppni EuroBasket 2027. Þar sem liðin eru í þriggja liða riðil var fyrsti leikur beggja liða gegn þriðja liðinu, Serbíu. Bæði máttu liðin þola ósigur í leikjum sínum gegn Serbíu, Portúgal með 26 stigum úti í Serbíu, en Ísland með 25 stigum heima í Ólafssal.

Byrjunarlið Íslands

Isabella Sigurðardóttir, Þóra Jónsdóttir, Thelma Dís Ágústsdóttir

Gangur leiks

Íslenska liðið byrjar leikinn af nokkrum krafti og eru þær skrefinu á undan á upphafsmínútunum. Mikið til var það Sara Rún Hinriksdóttir sem bar hitann og þungann í sóknarleik Íslands á þeim mínútum. Portúgal nær aðeins að svara, helst með áræðni í fráköstum og uppskera fimm stiga forskot að fyrsta fjórðung loknum, 19-14.

Íslenska liðið á í allskonar vandræðum varnarlega í öðrum leikhlutanum, ekki ósvipað og á köflum í leiknum gegn Serbíu. Portúgal virtist geta skorað að vild og þá voru þær nógu fastar fyrir á hinum enda vallarins til að skapa gífurlegt bil milli liðanna. Munurinn 29 stig þegar liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik, 55-26.

Stigahæst fyrir Ísland í fyrri hálfleiknum var Sara Rún Hinriksdóttir með 11 stig og Danielle Rodriguez var með 9 stig.

Lítið virðist ætla breytast í upphafi seinni hálfleiksins. Heimakonur í Portúgal fara mest með forystu sína í 35 stig í þeim þriðja, en þökk sé sterkri innkomu Rebekku Rutar Steingrímsdóttur, sem setur 11 stig í fjórðungnum, er munurinn aðeins 29 stig fyrir lokaleikhlutann, 80-51.

Að sjálfsögðu hálfgert formsatriði fyrir portúgalska liðið að klára leikinn í þeim fjórða. Íslenska liðið berst þó áfram, en uppskáru lítið á stigatöflunni í staðinn. Niðurstaðan að lokum gífurlega öruggur sigur heimakvenna, 100-70.

Kjarninn

Íslenska liðið var verra en það portúgalska á nánast öllum sviðum körfuboltans í kvöld. Mest sveið líklega hvað þær áttu á löngum köflum erfitt varnarlega. Heimakonur virtust eiga gífurlega auðvelt með að koma stigum á töfluna, hvort sem það var úr opnum skotum sem þær bjuggu til eða með laglegum leikfléttum sem opnuðu leiðina að körfunni. Þá var sóknarleikur Íslands einnig nokkuð stirður. Áttu sína bestu spretti sóknarlega þegar Sara Rún ákvað að gera eitthvað upp á sitt einsdæmi, eða, seinna í leiknum þegar Rebekka Rut ákvað að gera slíkt hið sama.

Heilt yfir frekar vond frammistaða hjá Íslandi í kvöld. Eiga þá afsökun inni að vera að gera eitthvað nýtt undir stjórn nýs þjálfarateymis. Sem er í bili alveg gild afsökun sem slík. Verður fróðlegt að sjá hvaða framförum liðið tekur í næsta glugga í mars.

Atkvæðamestar

Sara Rún Hinriksdóttir var atkvæðamest í liði Íslands í dag með 22 stig og 3 fráköst. Þá skilaði Rebekka Rut Steingrímsdóttir 16 stigum og 4 fráköstum.

Hvað svo?

Leikur kvöldsins var sá seinni af tveimur í þessum fyrsta glugga undankeppninnar. Næst mun liðið leika úti gegn Serbíu þann 11. mars næstkomandi.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Fréttir
- Auglýsing -