Tindastóll tók á móti Þórsurum frá Þorlákshöfn í Bónus deild karla í körfuknattleik í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld. Stólar höfðu leikið erfiðan Evrópuleik á þriðjudag og Þórsarar höfðu verið að eflast þannig að hér var um mögulegt bananahýði að ræða fyrir heimamenn.
Leikurinn fór enda jafnt af stað og liðin skiptust á körfum. Þristur frá Emil Karel kom Þórsurum í 8-12 um miðjan leikhlutann en Geks svaraði að bragði. Staðan 22-22 að loknum fyrsta leikhluta eftir troðslu frá Taiwo og góðan þrist frá Arnari Björns. Svipað var uppi á teningnum í öðrum leikhluta nema að Stólar voru lengst af skrefi á undan og leiddu í hálfleik 43-40.
Í þriðja leikhluta settu Stólar svo allt á fleygiferð og keyrðu yfir gestina með Taiwo Badmus í ógnvænlegu formi. Þórsarar gáfu honum skot fyrir utan sem hann setti og ef þeir reyndu að fara út í hann þá keyrði hann einfaldlega framhjá þeim og skoraði eða fékk villu eða bæði. Stólar gerðu 37 stig í leikhlutanum og þar af setti Taiwo 20 og var einfaldlega frábær. Staðan 80-66 fyrir lokaátökin og Stólar sigldu sigrinum heim þrátt fyrir nokkur áhlaup gestanna.
Hjá heimamönnum var Taiwo stigahæstur með 29 stig og tók þar að auki 9 fráköst. Jacoby Ross endaði stigahæstur gestanna með 30 stig og Lazar bætti 19 við en Þórsarar fengu aðeins 3 stig af bekknum í kvöld á móti 33 hjá Stólum.
Umfjöllun / Hjalti Árna



