Sjöundu umferð Bónus deildar kvenna lauk í dag, þar áttust við meðal annars Haukar og Valur. Fyrir umferðina voru bæði lið með 8 stig og því mátti búast við jöfnum og spennandi leik. Leikurinn var í raun aldrei spennandi, yfirburðir gestanna voru algerir, endaði hann 63-101 fyrir Val.
Fyrstu mínúturnar var nú samt jafnræði með liðunum, en Valskonur náðu undirtökunum þegar leið á leikhlutann og náðu forystu sem þær létu aldrei af hendi, þær breyttu stöðunni úr 11-16 í 11-24. Heimakonur réðu ílla við Alyssu sem skoraði 12 stig í leikhlutanum, Valur leiddi 19-29.
Liðin voru áþekk í upphafi annars leikhluta, skiptust á að skora, en aftur kom 0-8 kafli hjá Haukunum og skyndilega var kominn 19 stiga munur. Það gekk ekkert upp hjá heimakonum, hittnin var lítil sem engin og enduðu þær að skora aðeins 11 stig í leikhlutanum. Valskonur gengu á lagið og skoruðu aftur á móti 29 stig og leiddu í hálfleik 30-58.
Það kom aðeins meiri barátta í Haukana í upphafi seinni hálfleiks án þess þó að ná að ógna eitthvað forystu Valskvenna. En þetta var jafnasti leikhlutinn þótt að Haukarnir hafi tapað honum, en staðan eftir þrjá leikhluta var 44-77.
Það var öllum ljóst að leikurinn var tapaður fyrir Haukana og bara spurning hver munurinn væri í leikslok. Valskonum til hrós þá voru þær ekkert að slaka á og unnu þennan leikhluta einnig með fimm stigum og unnu þær með 38 stiga mun, 63-101.
Haukarnir voru kannski full gestrisnir í dag, þær töpuðu öllum tölfræðiþáttum leiksins nema í vörðum skotum. Valskonur taka 18 fleiri fráköst en Haukar og skotnýtingin var mjög góð, meðal annars 50% þriggja stiga nýtingu.
Hjá Haukum var Freeman sú eina sem átti eðlilegan leik, setti niður 24 stig og tók 13 fráköst. Tinna Guðrún var með 12 stig. Hjá Val Alyssa Cerino með stjörnuleik, gerði 25 stig og 9 fráköst. Rosie Stone gerði líka 25 stig.
Næsti leikur í deildinni hjá Haukum er 23. nóvember þegar þær fá aftur heimaleik og taka á móti Stjörnunni. Valur leikur aftur á móti tveimur dögum fyrr og taka þá móti toppliðinu Grindavík.



