Það var sannkallaður Reykjavíkurslagur í sjöttu umferð Bónusdeildar kvenna í kvöld, þegar Valskonur tóku á móti spútnikliði KR. Bæði lið með fjóra sigra og eitt tap. KR stelpurnar hafa komið virkilega skemmtilega á óvart og eru verðskuldað við topp deildarinnar. Eftir tvo sveiflukennda leikhluta, jafnaðist leikurinn og gat í raun dottið hvoru megin sem var, KR voru sterkari á lokametrunum og unnu 93-100
Valskonur byrjuðu að krafti og leiddu allan leikhlutann, voru mjög ágengar bæði í vörn og sókn, ef ekki hefði verið fyrir Molly, sem skoraði meirihlutann af stigum gestanna, þá hefði þetta nánast verið búinn leikur eftir aðeins einn leikhluta. Þriggja stiga nýtingin hjá báðum liðum var reyndar afleidd, 7 misheppnaðar tilraunir hjá Val, en samt leiddu þær 30-20 eftir fyrsta leikhluta.
KR stelpurnar komu mun ákveðnari út í annan leikhlutann, náðu að binda vörnina aðeins betur og fóru að saxa á forskot Vals. Um miðbiks leikhlutans, var munurinn komin í eitt stig. Og þær gerðu gott betur og komust yfir undir lokin en eftir mikinn barning þá endaði hálfleikurinn jafnt, 52-52.
Eftir tvo sveifluleikhluta var komið að einum jöfnum og spennandi, jafnt á nánast öllum tölum í upphafi. Þannig hélst það út leikhlutann, kannski ekki fallegasta boltaflæðið, en mikið um árásir á hringinn. Það var ekki fyrr en í blálokin að KR nái 5 stiga forystu og leiddi fyrir síðasta leikhlutann 70-75.
Það var sama spenna og barátta í fjörða leikhluta, mikið jafnræði. KR þó með frumkvæðið og Valur að elta. Það fór svo að KR, með Molly Kaiser í einhverjum ofurmannaham, lönduðu sterkum sigri í N1 höllinni, 93-100.
Hjá Val var Reshawna Stone stighæst með 26 stig, Alyssa átti fínan leik með 22 stig . Hjá KR var Molly óstöðvandi og fór oft ílla með Val, hún setti niður 44 stig, Rebekka Rut var einnig frábær og setti 27 stig.
Það er stutt í næstu leiki þessara liða, Valskonur kíkja í Hafnafjörðinn og takast á við Haukana, þann 5. nóvember. Sama dag fær KR Grindavík í heimsókn.



