Stjarnan lagði Hamar/Þór í Hveragerði í dag í fyrsta leik sjöttu umferðar Bónus deildar kvenna, 81-85.
Sigurinn sá annar hjá Stjörnunni í deildinni á meðan að Hamar/Þór er enn án sigurs eftir fyrstu sex umferðirnar.
Í fyrsta leikhluta voru leikar nokkuð jafnir á milli liðanna þó heimakonur í Hamar/Þór hafi verið skrefinu á undan. Svipað var uppi á teningnum í öðrum fjórðungnum, en þá var komið að Stjörnunni að vera á undan og leiða þær með fimm stigum í hálfleik.
Í upphafi seinni hálfleiksins nær Hamar/Þór aftur að snúa leiknum sér í vil. Ná þær aðeins að ganga á lagið og eru á tímabili í byrjun fjórða leikhluta komnar með 12 stiga forskot. Á lokamínútunum nær Stjarnan þó að koma til baka og er leikurinn í járnum inn í brakmínúturnar. Þær eru svo sterkari á lokamínútinni, með þristi frá Diljá Ögn Lárusdóttir og vítum frá Evu Wium Elíasdóttur og Berglindi Kötlu Hlynsdóttur ná þær að innsigla sigur, 81-85.
Stigahæstar fyrir Stjörnuna í leiknum voru Diljá Ögn Lárusdóttir með 27 stig og Eva Wium Elíasdóttir með 15 stig.
Fyrir Hamar/Þór var stigahæst Jovana Markovic með 23 stig og henni næsta Mariana Duran með 20 stig.



