spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaGrindavík léku sér að Valsmönnum

Grindavík léku sér að Valsmönnum

Fimmta umferð Bónusdeildar karla hófst í kvöld með fjórum leikjum. Þar á meðal tóku Valsmenn á móti funheitum Grindvíkingum, eina taplausa liðið í deildinni. Valsmenn hafa tapað tveimur og unnið tvo, reyndar síðustu tvo leikina sína. En Valsleikirnir hafa verið naglbýtar, nema kannski á móti Ármann, þannig að fyrirfram mátti búast jafnvel við hörkuleik. Því var samt alls ekki að heilsa, Grindavík sýndi það og sannaði að þeir eru besta lið landsins í dag, reyndar átti allt Valsliðið nema kannki Kristófer, algjöran hauskúpuleik. Grindavík vann leikinn 55 – 90.

Grindavík tók leikinn föstum tökum strax í upphafi, voru miklu betri bæði í vörn og sókn með framúrskarandi skotnýtingu og þegar fjórar mínútur voru liðnar, neyddist Finnur Freyr að henda í leikhlé, enda komnir 10 stigum undir og bara búnir að skora eina þriggja stiga körfu. Eitthvað hlustuðu heimamenn á þjálfarann eða hvort ástæðan var að Booker kom inn á, þá allavega var munurinn 8 stig eftir fyrsta leikhluta, eftir að hafa náð að minnka hann í 2 stig. Grindavík leiddi 13-21.

Annar leikhluti var nánast afritun af fyrri leikhluta, nema nú gekk Valsmönnum ekkert betur eftir leikhléiið sem þeir tóku og hittu enn verr. Aftur unnu Grindavík leikhlutann með átta stigum, þó manni fannst að sá munur ætti að vera meiri.  Staðan í hálfleik, 27-43.

Hörmungar heimamanna héldu áfram í seinni hálfleik, gestirnir skoruðu nánast að vild og léku “vörn” Valsmanna grátt.  Fór það svo að Grindavík vann þennan leikhluta með 10 stigum,  42-68.

Síðasti leikhlutinn var í raun bara formsatriði, Grindavík sem er sterkt lið, og hefur þann munað að hafa Ragnar Bragason sem 8. mann inn, fer ekki að tapa niður 26 stiga forystu. Enda kom það í ljós að sama hverjir voru inn á fyrir Grindavík, þá gengu þeir yfir Valsmenn og höfðu ekkert fyrir því. Fór það svo að gestirnir úr Grindavík unnu gríðarlega sannfærandi 35 stiga sigur 55-90. Já Valsmenn skoruðu bara 55 stig í heilum leik!

Það er ekki hægt að segja að það sé bjart yfir Valsmönnum, kaninn þeirra hlýtur að fá bráðum farmiða heim,  þeir eru ekki mjög djúpir á bekknum og mega ílla við að fyrstu fimm eigi off-leik. Grindavík aftur á móti hafa sýnt það og sannað að þeir eru meistaraefni, gríðarlega vel rútínerað lið og með góða dýpt

Stighæstir hjá Val var Callum Lawson, með 13, Acox var skástur, með 11 stig og 10 fráköst. Hjá Grindavík Shabazz með 24 stig, Semple, sem var drjúgur, með 17 stig og 7 fráköst. Mortensen tók 15 stig og 7 fráköst.

Í næstu umferð fara Valsmenn upp á Akranes, 6. nóvember og Grindavík fær Keflavík í heimsókn þann 7. nóvember.

Tölfræði leiks

Viðtöl upphaflega birt á vef Víkurfrétta.

Fréttir
- Auglýsing -