spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaLjónynjurnar stöðva sigurgöngu Grindavíkur

Ljónynjurnar stöðva sigurgöngu Grindavíkur

Þrenna hjá Abby – tvenna hjá Dani

Njarðvík varð í kvöld fyrst liða í Bónusdeild kvenna til að færa Grindvíkingum ósigur en fyrir umferðina í kvöld höfðu Grindvíkingar unnið fjóra fyrstu leikina sína. Lokatölur í IceMar-Höllinni voru 85-84 þar sem gestirnir fengu lokaskot leiksins en það vildi ekki niður og Njarðvík fagnaði sigri. Óhætt að kalla Njarðvíkinga „streak busters“ þar sem karlaliðið varð fyrst liða í síðustu umferð til að leggja Tindastól að velli.

Fyrrum liðsfélagarnir Emilie Hesseldal og Pauline Hersler hittust í borgaralegum klæðum í kvöld, Hersler fjarverandi í Njarðvíkurliðinu og Hesseldal ekki með Grindavík. Skulum vona að það sé ekki löng lega á hnjaskvagninum enda báðar mikilvægir hlekkir í Suðurnesjaliðunum. Þá voru Njarðvíkingar einnig án Helenu Rafnsdóttur svo það er óhætt að segja að Reykjanesrimman hafi ekki verið fullmönnuð þetta sinnið.

Heimakonur í Njarðvík mættu því aðeins lægri en áður í fjarveru Hersler og hófu leik á 2-3 svæðisvörn. Grindvíkingar þökkuðu það með þrist í fyrsta skoti en síðan gekk lítið í skotunum það sem eftir lifði fyrsta leikhluta. Að sama skapi var Hulda María í stuði Njarðvíkurmegin með 12 stig á fyrstu tíu mínútunum og Njarðvík leiddi 26-16. Grindvíkingar með 23% skotnýtingu í fyrsta hluta en það átti eftir að batna.

Gestirnir úr Grindavík snéru taflinu við í öðrum leikhluta, fundu góðar glufur á svæðisvörn Njarðvíkinga þar sem Ellen, Abby og Farhiya voru beittar. Eins héldu þær Njarðvíkingum í 17 stigum og hertu þar af leiðandi vörnina og gerðu það villulaust í tíu mínútur!

Dani kom Njarðvík yfir 43-42 þegar sex sekúndur lifðu af fyrri hálfleik en Abby brunaði þá fram og Njarðvíkingar brutu á henni í skoti með 0,3 sekúndur eftir af fyrri. Abby þakkaði fyrir sig, setti bæði vítin niður og Grindvíkingar leiddu 43-44 í hálfleik og unnu því annan leikhluta 17-28 og rifu skotprósentuna sína úr 23% upp í 38%.

Hulda María var stigahæst með 12 stig hjá Njarðvík í hálfleik og næst henni var Dani með 11 stig. Hjá Grindavík var Ellen atkvæðamest með 12 stig og þær Abby og Farhiya báðar með 11.

Síðari hálfleikur var hnífjafn og spennandi, Sara Björk lék vel í Njarðvíkurliðinu í þriðja leikhluta og Ellen beitt hjá Grindavík, Njarðvík vann leikhlutann 23-21 og því var staðan 66-65 eftir þrjátíu mínútur. Dani lokaði leikhlutanum skemmtilega fyrir Njarðvíkinga með flautuþrist eftir að hafa brunað upp allan völlinn og skorað með því að smeygja sér á milli tveggja varnarmann, heppnisfnykur af þessu en það telur víst líka og Njarðvík leiddi með einu stigi fyrir fjórða.

Abby tók við keflinu í Grindavík í fjórða, var mögnuð í kvöld með alvöru þrennu eða 23 stig, 12 fráköst og 11 stoðsendingar. Í fjórða voru nokkrar spennandi sendur, allt var jafnt og á lokasprettinum leiðir Njarðvík 83-82 en Grindvíkingar stela þá boltanum af Njarðvík þar sem Abby brunar upp og skorar og kemur Grindavík í 83-84 þegar 7,1 sekúnda er eftir. Njarðvíkingar tóku leikhlé og að því loknu hófst flétta sem endaði í höndunum á Láru Ásgeirsdóttur og brotið á henni í sniðskoti. Lára ísköld setti bæði vítin og kom Njarðvík 85-84 og 2,4 sekúndur eftir. Grindvíkingar tóku leikhlé og út úr því kom að Ellen fékk galopinn þrist til að hrifsa sigurinn yfir til Grindvíkur en boltinn dansaði af hringnum og Njarðvík fagnaði sigri.

Eflaust verður næsta viðureign þessara liða eitthvað öðruvísi á boltann þegar Hesseldal, Hersler og Helena mæta til leiks en viðureign kvöldsins var jöfn, spennandi og skemmtileg og því von á góðu þegar þessi lið mætast á nýjan leik.

Dinkins gerði 26 stig, tók 8 fráköst og gaf 7 stoðsendingar hjá Njarðvík í kvöld og Dani bætti við 21 stigi, 16 fráköstum og 8 stoðsendingum. Þá var Hulda með 15 stig og 9 fráköst og Sara 14. Hjá Grindavík var Ellen stigahæst með 28 stig og 10 fráköst og Abby með þrennu eins og áður greinir 23 stig, 12 fráköst og 11 stoðsendingar.

Tölfræði leiksins

Myndir frá leiknum – SBS

Fréttir
- Auglýsing -