Nýliðar Ármanns náðu í sinn fyrsta sigur í Bónus deild kvenna er liðið lagði Hamar/Þór í Þorlákshöfn í fjórðu umferð deildarinnar í kvöld, 73-78.
Ármann því komnar með einn sigur og þrjú töp á meðan Hamar/Þór er enn án stiga eftir fyrstu fjórar umferðirnar.
Líkt og tölurnar gefa til kynna var leikur kvöldsins nokkuð spennandi. Ármenningar leiddu þó lengst af, með einu stigi eftir fyrsta leikhluta og fjórum stigum í hálfleik þrátt fyrir að hafa mest verið 11 stigum yfir í öðrum leikhlutanum, 39-43.
Lengst af heldur Ármann svo naumri forystu sinni í seinni hálfleiknum, en það er ekki fyrr en í lokaleikhlutanum sem þær ná almennilegum tökum og fara mest 11 stigum yfir. Aftur nær Hamar/Þór að klóra sig út úr þeirri holu og þurfa nýliðarnir stórar körfur frá Khiana Johnson og Dzönu Crnac til að innsigla þennan fyrsta sigur liðsins í deildinni, 73-78.
Stigahæst fyrir Hamar/Þór í kvöld var Jadakiss Gunn með 24 stig og Jóhanna Ýr Ágústsdóttir bætti við 14 stigum.
Fyrir Ármann var stigahæst Dzana Crnac með 25 stig og Sylvía Rún Hálfdánardóttir bætti við 21 stigi.
Viðtöl / Oddur Ben



