Dusan Alimpijevic, þjálfari Beşiktaş, tók nýlega við af Svetislav Pesic og varð nýr aðalþjálfari serbneska landsliðsins.
Eftir sigur Beşiktaş á Onvo Büyükçekmece fór Dusan til Belgrad í Serbíu og talaði við fjölmiðla í fyrsta skipti sem aðalþjálfari landsliðs þeirra. Meðal þess sem hann ræddi var að stýra Besiktas í Tyrklandi og landsliði Serbíu samtímis, en það kallaði hann „forréttindi“ sem fáir geta notið.
„Þrýstingurinn sem ég finn fyrir er forréttindi sem mjög fáir hafa. Auðvitað verður maður að vera mjög agaður í lífinu. Ég mun ekki hafa neinn frítíma. Jafnvel þótt ég hefði það, þyrfti ég að skipuleggja mjög vandlega hvernig ég nýti hann. Hversu margar klukkustundir mun ég helga Beşiktaş, hversu margar klukkustundir mun ég helga landsliðinu…? Getur þjálfara dreymt um eitthvað meira en það? Ég get ekki lýst því hversu stoltur ég er af sjálfum mér,“ sagði Dusan.
Varðandi nýja hlutverkið sitt og þá hugmyndafræði sem hann stefnir á að innleiða, þá var Dusan mjög skýr, auðmjúkur og þakklátur fyrir tækifærið. „Þegar ég hugsa um fólkið sem hefur gegnt þessari stöðu áður, þá verð ég enn stoltari. Ég veit hversu mikils virði körfubolti er fyrir þetta land. Ég vil þakka forseta Covic (forseta serbneska körfuknattleikssambandsins) og stjórninni fyrir að telja mig verðugan þessa stöðu,“ bætti hann við.
Þegar Dusan var spurður um mögulegar breytingar á serbneska landsliðinu, einu því besta í heimi stóð hann fastur á þeim hugmyndum sem þeir hafa haft hingað til. „Við rannsökuðum mikilvægustu einkenni körfubolta nútímans og þau hafa breyst verulega á síðustu árum. Það væri fáránlegt að segja að við munum spila þessa eða hina tegund körfubolta því við vitum ekki enn hverja við munum hafa,“ sagði hann.
Hann notaði tækifærið til að gera eitt stórt atriði ljóst og það er að það verða engir „innfluttir“ leikmenn í leikmannahópi hans. „Útlendingur … nei, ekki meðan ég er þjálfari. Við vitum hvernig við erum sem þjóð og við værum ekki svona ef við hefðum slíka leikmenn,“ sagði hann að lokum.
Serbía hefur verið ein besta körfuboltaþjóð síðustu ára og áratuga og þrátt fyrir ákveðið skipbrot á lokamóti EuroBasket nú í haust er lið þeirra talið það þriðja sterkasta í heiminum, en aðeins Bandaríkin og heims- og Evrópumeistarar Þýskalands eru fyrir ofan þá á styrkleikalistanum.
Þrátt fyrir að telja aðeins rúmlega sex miljónir hefur Serbía aldrei notast við leikmenn sem fæddir eru í öðrum löndum og/eða eru innfluttir, ólíkt mörgum öðrum þjóðum, en samkvæmt reglum má einn slíkur vera í hverju liði.



