Álftnesingar fengu Grindjána í heimsókn í þriðju umferð Bónusdeildar karla í kvöld í Forsetahöllinni. Kannski hefðu einhverjir haldið að það yrði haustbragur á leiknum en svo var alls ekki. Höllin var full, beggja vegna vallarins og áhorfendur í miklu stuði.
Leikurinn byrjaði fjörlega og bæði liðin voru að fá fín færi bæði upp við körfuna og fyrir utan. Þó sást strax að Álftnesingar höfðu ekki á marga leikmenn að stóla á til þess að koma boltanum upp völlinn og í réttar sóknarstöður. Grindavíkurmegin voru menn að leita að stöðumun, sem sást best á því að þegar að DeAndre Kane fékk Hauk Helga Pálsson á sig þá óð hann á körfuna með góðum árangri. En staðan í hálfleik 42-39 fyrir heimamenn.
Grindavík tók fljótlega forystuna í seinni hálfleik með góðum leikkerfum sem gerðu vörn Álftnesinga erfitt fyrir. En stirður sóknarleikur heimamanna gerði það að verkum að þeir náðu ekki að svara og gestirnir fóru með 54-61 mun inn í fjórða og síðasta leikhlutann.
Í lokaleikhlutanum reyndust Grindavík einfaldlega sterkari og þrátt fyrir mikla baráttu tókst heimamönnum aldrei að komast í þá stöðu að þeir gæru jafnað. Niðurstaðan, þægilegur sigur Grindvíkinga sem eru taplausir í deildinni.
Stigahæstur Grindvíkinga var Khalil Shabazz með 18 stig en hjá heimamönnum var Ade Henry með 23 stig.
Álftanes: Ade Taqqiyy Henry Murkey 23/5 fráköst/3 varin skot, Shawn Dominique Hopkins 14/4 fráköst, Dúi Þór Jónsson 12/4 fráköst, Haukur Helgi Briem Pálsson 6/6 fráköst/5 stoðsendingar, Ragnar Ágúst Nathanaelsson 5/7 fráköst, David Okeke 5/9 fráköst, Sigurður Pétursson 3, Hilmir Arnarson 2, Duncan Tindur Guðnason 0, Arnór Steinn Leifsson 0, Ingimundur Orri Jóhannsson 0, Almar Orn Bjornsson 0.
Grindavík: Khalil Shabazz 18, Ólafur Ólafsson 15/6 fráköst, Jordan Semple 14/12 fráköst/5 stoðsendingar/5 stolnir, Deandre Donte Kane 11/5 stoðsendingar, Daniel Mortensen 10/6 fráköst, Arnór Tristan Helgason 5, Ragnar Örn Bragason 3, Kristófer Breki Gylfason 3, Nökkvi Már Nökkvason 0, Unnsteinn Rúnar Kárason 0, Alexander Veigar Þorvaldsson 0.
Viðtöl upphaflega birt á vef Víkurfrétta



