spot_img
HomeFréttirGimle engin fyrirstaða fyrir frábæra stóla.

Gimle engin fyrirstaða fyrir frábæra stóla.

Evrópuvegferð Tindastóls í körfuknattleik heldur áfram og í kvöld tóku Stólar á móti Gimle Basket í Síkinu. Stólar höfðu unnið fyrsta leik sinn í Slóvakíu á meðan Gimle tapaði fyrir Sigal Prishtina

Leikurinn fór kröftuglega af stað og troðfullt Síkið var vel með á nótunum frá byrjun. Liðin skiptust á körfum en gestirnir sigu aðeins framúr um miðjan fyrsta leikhlutann og staðan 16-21 þegar um 2 mínútur voru eftir. Þá tóku Stólar aðeins við sér og Ragnar Ágústsson steig heldur betur upp og setti 9 stig í röð og lokaði leikhlutanum með geggjuðum þrist, 25-23 fyrir Stóla. Annar leikhluti þróaðist svipað og sá fyrsti, gestirnir byrjuðu aðeins betur en Stólar áttu alltaf svör. Upp úr miðjum leikhlutanum tóku Stólarnir svo öll völd á vellinum og þristur frá Arnari þegar um 20 sekúndur voru til hálfleiks kom þeim í 20 stiga mun, 59-39. Gestirnir náðu að loka hálfleiknum með þristi og Arnar þjálfari varð brjálaður á hliðarlínunni. Staðan 59-42 í hálfleik.

Stólar komu heldur betur tilbúnir inn í seinni hálfleikinn og skoruðu fyrstu 15 stigin. 32 stiga munur og leik í raun lokið þó fullt af mínútum væru eftir. Gestirnir áttu nokkra spretti eftir að Stólar slökuðu augljóslega á í vörninni og þeir náðu að minnka muninn í 20 stig í lok þriðja leikhluta en nær komust þeir ekki og Stólar sigldu gríðarlega sterkum sigri heim, lokatölur 125-88.

Tölfræði leiksins

Þeir sem koma nálægt ljósmyndun tala stundum um að fanga augnablikið og segja má að Ragnar Ágústsson hafi gert það í kvöld. Hann hreinlega tók yfir leikinn snemma og Gimle menn réðu ekkert við hann. Ragnar endaði með 28 stig og 8 fráköst, alls 37 framlagsstig. Líklega hans besti leikur á ferlinum hingað til og hann hefur blómstrað undir stjórn Arnars. Ivan Gavrilovic var einnig frábær með 20 stig og 14 fráköst og Basile skilaði 15 stigum og 9 stoðsendingum. Stórgóður leikur hjá Tindastólsliðinu. Gestirnir frá Gimle byrjuðu ágætlega en það fjaraði undan þeim og greinileg þreytumerki í seinni hálfleik. Þeirra atkvæðamestur var Keyshawn Johnson með 23 stig og 10 fráköst.

Næsti leikur Stóla í ENBL er gegn BK Opava í Tékklandi á mánudaginn

Viðtöl

Ragnar Ágústsson
Arnar Guðjónsson

Umfjöllun – Hjalti Árna

Fréttir
- Auglýsing -