spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaFalko sterkur í framlengdum sigri gegn Njarðvík

Falko sterkur í framlengdum sigri gegn Njarðvík

Njarðvík og ÍR mættust í IceMar-Höllinni í kvöld í annarri umferð Bónusdeildar karla. Fyrir leik voru liðin með tap á bakinu í opnunarumferðinni og því bæði á höttunum eftir sínum fyrstu stigum á leiktíðinni.

Skemmst er frá því að segja að annað árið í röð fara ÍR-ingar með tvö stig úr IceMar-Höllinni og í kvöld eftir framlengdan spennuslag. Milka fékk lokaskot leiksins til að vinna fyrir Njarðvík en sá þristur skrúfaði sig upp úr hringnum og ÍR fagnaði sigri.

Janfræði var með liðunum á fyrstu tíu mínútum leiksins, staðan 20-20 að loknum fyrsta leikhluta þar sem Veigar Páll var með 10 stig í liði Njarðvíkinga en Falko 9 hjá ÍR.

Kapparnir úr Breiðholti voru mun líflegri í upphafi annars leikhluta og komust í 22-36 á fyrstu fjórum mínútum leikhlutans. 2-16 byrjun á fjórum mínútum þar sem Tómas, Aron og Kristján komu allir vel sprækir inn af bekk gestanna.

Njarðvíkingar náðu þó að hrista af sér slenið og tóku næstu sex mínútur í að saxa niður forskot gestanna þar sem Veigar Páll og Brandon leiddu áhlaupið. ÍR-ingar leiddu þó 44-46 í hálfleik. Veigar Páll með 15 og Brandon 11 hjá Njarðvík en Falko með 11 hjá ÍR og þeir Hákon og Tsotne báðir með 7.

ÍR-ingar voru áfram feti framar í þriðja leikhluta, unnu þessar tíu mínútur 23-28 þar sem Falko fór fyrir sínum mönnum. Tsotne fékk sína fjórðu villu í þriðja leikhluta og sást lítið en það virtist ekki slá gestina út af laginu þar sem Kristján Fannar og Tómas Orri voru að koma vel inn af bekknum og ÍR leiddu 67-74. Njarðvíkurmegin var Dwayne helsti sóknarbroddurinn og grænir soldið að hökta.

Í fjórða leikhluta fór allt í járn, Njarðvíkingar náðu með seiglu að jafna leikinn og koma honum í framlengingu. KrIstján Fannar sem var öflugur hjá ÍR í kvöld fékk lokaskotið í venjulegum leiktíma til að gera út um leikinn og tryggja ÍR tvö stig en það geygaði og því var framlengt í stöðunni 92-92.

Framlengingin var sveifla, Njarðvík byrjaði 8-0 og komst í 100-92. Eftir það skoruðu heimamenn ekki og ÍR fór í 10-0 lokakafla og vann leikinn 100-102. Falko tók stjórnina hjá ÍR í framlengingunni og gerði 8 af 10 stigum ÍR og lauk leik með 29 stig, 6 fráköst og 6 stoðsendingar. Dimitrios bætti við 16 stigum en þeir Kristján Fannar og Tómas Orri komu báðir með 9 stig af ÍR bekknum í kvöld og léku vel. Hjá Njarðvík voru Dwayne og Veigar báðir með 30 stig og Brandon 17.

Tölfræði leiksins

Fréttir
- Auglýsing -