Íslandsmeistarar Hauka höfðu betur gegn nýliðum KR á Meistaravöllum í kvöld í 2. umferð Bónus deildar kvenna, 92-70.
Það sem af er hefur KR því unnið einn leik og tapað einum á meðan Haukar hafa unnið fyrstu tvo leiki sína.
Leikur kvöldsins var nokkuð jafn og spennandi í fyrri hálfleiknum. Haukar voru aðeins stigi yfir eftir fyrsta leikhluta og þremur á undan þegar liðin héldu til búningsherbergja, 37-40.
Haukar ná svo góðum tökum á leiknum í upphafi seinni hálfleiksins. Ná betur að hafa gætur á Molly Kaiser leikmanni KR, sem hafði verið frábær í fyrri hálfleiknum, og þá fá þær nokkra þrista til að detta. Uppskera þægilega 14 stiga forystu fyrir lokaleikhlutann. Í honum bæta þær svo aðeins í. Heimakonur ná aldrei að komast aftur í takt og er niðurstaðan að lokum öruggur sigur Hauka, 92-70.
Stigahæstar fyrir Hauka í leiknum voru Krystal-Jade Freeman með 24 stig og Amandine Toi með 18 stig.
Fyrir KR var Molly Kaiser með 24 stig og nýr leikmaður þeirra Eve Braslis bætti við 14 stigum.



