spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaÞriggja stiga sigur Njarðvíkur í N1 höllinni

Þriggja stiga sigur Njarðvíkur í N1 höllinni

Njarðvík hafði betur gegn Val í N1 höllinni í æsispennandi leik í annarri umferð Bónus deildar kvenna í kvöld, 77-80.

Njarðvík er því með tvo sigra eftir fyrstu tvær umferðirnar á meðan Valur er með einn sigur og eitt tap.

Leikur kvöldsins var nokkuð kaflaskiptur, en eftir fyrsta leikhluta voru það heimakonur í Val sem voru skrefinu á undan, 26-22. Í öðrum leikhlutanum nær Njarðvík að snúa taflinu sér í vil og ná mest fimm stiga forskoti áður en heimakonur komast aftur yfir og leiða leikinn í hálfleik, 44-40.

Besti kafli Njarðvíkur kemur svo í upphafi seinni hálfleiksins og ná þær þá aftur að komast yfir og leiða með fjórum stigum fyrir lokaleikhlutann. Í honum skiptast liðin svo á forskotinu og má varla á milli sjá á lokasekúndunum. Að lokum er það þétt vörn Njarðvíkur, körfur af vellinum frá Brittany Dinkins og af vítalínunni frá Huldu Maríu Agnarsdóttur sem innsigla sigur Njarðvíkur, 77-80.

Stigahæstar fyrir Val í kvöld voru Reshawna Stone með 34 stig og Ásta Júlía Grímsdóttir með 14 stig.

Fyrir Njarðvík var Brittany Dinkins með 30 stig og Dani Rodriguez henni næst með 22 stig.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -