Njarðvík hafði betur gegn Val í N1 höllinni í æsispennandi leik í annarri umferð Bónus deildar kvenna í kvöld, 77-80.
Njarðvík er því með tvo sigra eftir fyrstu tvær umferðirnar á meðan Valur er með einn sigur og eitt tap.
Leikur kvöldsins var nokkuð kaflaskiptur, en eftir fyrsta leikhluta voru það heimakonur í Val sem voru skrefinu á undan, 26-22. Í öðrum leikhlutanum nær Njarðvík að snúa taflinu sér í vil og ná mest fimm stiga forskoti áður en heimakonur komast aftur yfir og leiða leikinn í hálfleik, 44-40.
Besti kafli Njarðvíkur kemur svo í upphafi seinni hálfleiksins og ná þær þá aftur að komast yfir og leiða með fjórum stigum fyrir lokaleikhlutann. Í honum skiptast liðin svo á forskotinu og má varla á milli sjá á lokasekúndunum. Að lokum er það þétt vörn Njarðvíkur, körfur af vellinum frá Brittany Dinkins og af vítalínunni frá Huldu Maríu Agnarsdóttur sem innsigla sigur Njarðvíkur, 77-80.
Stigahæstar fyrir Val í kvöld voru Reshawna Stone með 34 stig og Ásta Júlía Grímsdóttir með 14 stig.
Fyrir Njarðvík var Brittany Dinkins með 30 stig og Dani Rodriguez henni næst með 22 stig.



