Í kvöld kláraðist fyrsta umferðin í Bónus deild karla, þegar Valsmenn tóku á móti silfurliðinu frá því í fyrra, Tindastól. Þetta er frestaður leikur, vegna þess að Tindastóll voru fastir í Þýskalandi.
Eins og venjulega eru alltaf eitthvað um mannabreytingar á milli ára, meðal annars, Badmus skipti úr Val og yfir í Tindastól, Júlíus frá Stjörnunni. Callum Lawson er kominn aftur í Val og svo er auðvitað nýr kafteinn í brúnni hjá Stólunum. En það er skarð fyrir skildi að Badmus er ekki að spila með og ekki heldur nýji kaninn hjá Val. En Valur er að frumsýna nýjan mann, Lazar Nikolic.
Leikurinn var hinn besta skemmtun, barátta og spennandi. Eftir jafnræði nánast allan leikinn tókst Tindastól að kreista út sigur, 85-87.
Það var ekki að sjá að það væri nein ferðaþreyta hjá gestunum, mikill hraði og ákefð hjá báðum liðum sem skiptust á að hafa forystu. Bæði lið voru að hitta ágætlega og óvenjulítið um tæknifeila, miðað við að þetta er fyrsti leikurinn á tímabilinu. Tindastóll náði þó naumri forystu þegar leikhlutinn var hálfnaður og fóru í annan leikhluta með stöðuna 21-25.
Þeir héldu síðan áfram að auka muninn í byrjun annars leikhluta, settu niður fyrstu átta stigin og neyddu Valsmenn í leikhlé. Það skilaði ekki miklu og allt í einu voru Valsmönnum fyrirmunað að setja niður körfu. Á meðan héldu Stólarnir áfram að auka muninn og voru komin með 17 stiga forystu þegar Nikolic setti niður þrist, sem var fyrsta karfa Valsmanna í öðrum leikhluta og Valur ekki skorað í 4 mínútur. Þetta gaf heimamönnum einhverja smátrú, því Kári setti niður magnaðan þrist og síðan í næstu sókn, mjög erfiðan tvist í eiginlega vonlausu lay-uppi og fékk vítaskot að auki. Skyndilega var munurinn kominn í átta stig. Stólarnir svöruðu því snarlega með sex stigum. Tindastóll fór með 10 stiga forystu í hálfleikinn 41-51.
Valsmenn ætluðu greinilega ekki að vera jafn gjafmildir í þriðja leikhluta eins og þeir voru í öðrum. Byrjuðu af miklum krafti bæði í sókn og vörn, skoruðu fyrstu sex stigin. Stólarnir voru nú samt ekkert að fara á taugum, héldu forystunni þótt hún færi minnkandi í byrjun. Valsmenn gekk samt erfiðlega að koma sér yfir og fór svo að Tindastóll leiddi eftir 3 leikhluta 61-64.
Tindastóll byrjaði síðan með látum, Sigtryggur sett niður tvo flotta þrista og kom muninum upp í 9 stig. Valsmenn svöruðu og voru sífellt að hóta að taka forystuna, en alltaf þegar þeir áttu möguleika á því, þá klikkuðu þeir. Það kom smá hiti í menn í lokin, kemur kannski á óvart að Drungilas var þar í aðalhlutverki. Basile sá um að viðhalda forystu Stólanna, með ótrúlegum körfum. En þegar 35 sekúndur voru eftir þá jafna Valsmenn leikinn í fyrsta skiptið síðan í 1. leikhluta. Stólarnir taka forystuna strax og Valur jafnar þegar 6.5 sekúndur eru eftir. Tindastóll setur upp play sem endar með að Basile dansar framhjá varnarmönnum Vals og setur auðelda körfu og Tindastóll vinnur 85-87. Frábær leikur sem gefur góð fyrirheit um körfuboltaveturinn.
Þess má geta að það var virkilega vel mætt í N1 höllina, hjá báðum liðum. Einnig er frábært að sjá Arnar, þjálfara Tindastóls, aftu rá hliðarlínunni, hann litar svo sannarlega körfuboltann.
Hjá Valsmönnum var Kári Jónsson atkvæðamikill með 16 stig og 7 stoðsendingar, Booker setti niður 24 stig og 9 fráköst og Callum Lawson var með 16 stig.
Basile, sem átti magnaðan lokakafla setti niður 19 stig og 11 stoðsendingar, Drungilas setti 15 stig og 12 fráköst. Ivan Gavrilovic var flottur og setti 17 stig.
Næsti leikur Valsmanna er 11. okt, þegar þeir heimsækja Íslandsmeistarana í Stjörnunni, Tindastóll hinsvegar leikur 9. okt þegar þeir fá Keflvíkinga í heimsókn.
Viðtöl væntanleg



