KR lagði Íslandsmeistara Stjörnunnar á Meistaravöllum í framlengdum fyrsta leik liðanna í Bónus deild karla, 102-98.
Það voru gestirnir úr Garðabæ sem leiddu lengi vel framan af leik. Þá voru það Giannis Agravanis og Orri Gunnarsson sem báru hitann og þungann af sóknarleik liðsins. Þegar líða tók á leikinn var eins og það drægi af þeim mönnum og þá var lið Íslandsmeistaranna, sem var nokkuð þunnskipað í kvöld, einnig komið í nokkur villuvandræði.
Það er ekki hægt að segja að KR hafi komið til baka, þar sem þeir voru aldrei neitt sérstaklega langt undan, en um leið og Giannis Agravanis meiddist og reyndari leikmenn Stjörnunnar þurftu að fara skipta inná við annars kröftuga yngri leikmenn Garðabæjarliðsins gekk KR á lagið.
Að lokum mátti ekki miklu muna. Aleksa Jugovic þurfti að tryggja KR framlenginguna og að lokum voru heimamenn sterkari í henni, en þeir vinna leikinn með 4 stigum, 102-98. Fremstir í flokki hjá þeim voru Linards Jaunzems og Þórir Guðmundur Þorbjarnarson, en hjá Stjörnunni voru það áðurnefndir Orri og Giannis.
Á einhvern hátt ættu bæði lið að geta hrósað einhverju happi eftir leik kvöldsins. Ungir leikmenn Stjörnunnar sýndu það á löngum köflum að þeir eru nokkrir vel tilbúnir í baráttuna í efstu deild, þá kannski helstir Jakob Kári Leifsson og Atli Hrafn Hjartasrson. Heimamenn geta aftur á móti verið ánægðir með að ná í sigur gegn Íslandsmeistaraliði síðustu leiktíðar.



