spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaStjarnan meistari meistara eftir eins stigs sigur gegn Val

Stjarnan meistari meistara eftir eins stigs sigur gegn Val

Rétt eins og það þarf að hleypa beljunum út á vorin þá þarf að hleypa leikmönnum út að spila á haustin. Það er ekki þannig að í meistarakeppni KKÍ sé búist við besta körfuboltanum heldur er verið að ræsa körfuboltavélarnar fyrir veturinn. Leikurinn var ágæt skemmtun, sérstaklega í lokin þegar þakið ætlaði af húsinu þegar Stjörnumönnum tókst að kreista fram 90-89 sigur. 

Leikurinn hófst fjörlega og bæði lið hittu úr fyrstu skotunum sínum. Um gamalkunna drætti var að ræða því Valur hófst undir eins handa við að fóðra Callum Lawson á sínum uppáhalds staða á miðpóstinum.

Hjá Stjörnunni var Orri Gunnarsson manna heitastur í byrjun. Fyrsti leikhluti einkenndist af lítilli hörku og frekar miklu jafnaðargeði og stemmningin minnti frekar á sjónvarpssal hjá Gísla Marteini frekar en kappleik í körfubolta. Valsmenn sigu þó framúr og leiddu 22-28 eftir fyrsta leikhluta þar sem Lawson var kominn með 10 stig. Mikið jafnræði var með liðunum í öðrum leikhluta þar sem Ægir Þór kveikti á sér, kom Stjörnunni inn í leikinn og var kominn með 20 stig og forystuna í leiknum þegar að flautan gall. 52-50.  

Það markverðasta í fyrri hálfleik var að dómarar leiksins skiptu úr gráu yfir í appelsínugult, mögulega of mikill sviti hér í fyrsta leik fyrir bara eina treyju.  

Það var áfram talsvert jafnræði með liðunum í þriðja leikhluta og áfram var ekkert sérstaklega mikið um fína drætti. Áfram hélt hins Callum Lawson að malla eins og góð kjötsúpa á köldum haustdegi. Það voru hins vegar Stjörnumenn sem voru meira vakandi og leiddu eftir leikhlutann 76-69. Þegar hér var komið við sögu var Ægir stigahæstur hjá heimamönnum með 24 stig rétt eins og Callum Lawson fyrir Val.  

Fjórði leikhlutinn var hark. Menn orðnir dálítið stífir og staðir og smá erfitt að finna körfur. Stjarnan komst í 86-70 þegar um 5 mínútur lifðu af leiknum og þá var þetta orðið erfitt fyrir ískalda Valsara.  

Eða… það myndi maður halda. Allt í einu héldu þeim engin bönd og þeir minnkuðu muninn í 90-89. Þannig var staðan þegar að 6 sekúndur voru eftir og Valur átti innkast á kantinum. Nokkrar tilraunir vildu ekki ofaní svo Stjörnumenn fögnuðu eins stigs sigri.  

Ægir þór Steinarsson var frábær í liði Stjörnunnar og skoraði 30 stig. Hjá Val var Callum Lawson atkvæðamestur með 24 stig. 

Tölfræði leiks

Stjarnan: Ægir Þór Steinarsson 30/5 fráköst/7 stoðsendingar, Luka Gasic 21/9 fráköst, Giannis Agravanis 18/9 fráköst, Orri Gunnarsson 12, Bjarni Guðmann Jónson 9/9 fráköst, Kormákur Nói Jack 0, Jón Breki Sigurðarson 0, Aron Kristian Jónasson 0, Atli Hrafn Hjartarson 0, Björn Skúli Birnisson 0, Jakob Kári Leifsson 0.


Valur: Callum Reese Lawson 24/7 fráköst, Frank Aron Booker 22/8 fráköst/7 stoðsendingar, Kristófer Acox 16/8 fráköst, Kári Jónsson 12, LaDarien Dante Griffin 11/7 fráköst, Ástþór Atli Svalason 2, Karl Kristján Sigurðarson 2, Oliver Thor Collington 0, Orri Már Svavarsson 0, Veigar Örn Svavarsson 0, Hjálmar Stefánsson 0, Björn Kristjánsson 0.

Viðtöl

Fréttir
- Auglýsing -