Landsliðsmaðurinn Hilmar Smári Henningsson og nýtt félag hans Jonava í Litháen luku undirbúningstímabili sínu með jafntefli gegn VEF Riga frá Lettlandi í gær, 90-90.
Hilmar var stigahæsti leikmaður Jonava í leiknum með 22 stig, en næstir honum voru Matas Repsys með 17 stig og Daviens Williamson með 10 stig.
Fyrsti leikur deildarinnar hjá Hilmari Smára er þann 20. september, en þá mun Jonava taka á móti stórveldi Zalgiris.
Hilmar Smári samdi við Jonava eftir að hafa lokið leik með íslenska landsliðinu á EuroBasket í byrjun september og yfirgaf þar með Stjörnuna í Bónus deildinni eftir að hafa unnið Íslandsmeistaratitilinn með þeim síðasta vor.



