spot_img
HomeLandsliðinEuroBasket 2025Tryggvi Snær í flokki með Giannis, Sengun, Jokic og Vucevic á EuroBasket...

Tryggvi Snær í flokki með Giannis, Sengun, Jokic og Vucevic á EuroBasket 2025

Lokamóti EuroBasket 2025 lauk í gær er Þýskaland lagði Tyrkland í úrslitaleik í Riga í Lettlandi.

Að leik loknum var leikmaður Þýskalands Dennis Schroder valinn verðmætasti leikmaður mótsins, ásamt því að vera í fimm leikmanna úrvalsliði mótsins með landa sínum Franz Wagner, Giannis Antetokounmpo frá Grikklandi, Luka Doncic frá Slóveníu og Alperen Sengun frá Tyrklandi.

Þá voru í öðru úrvalsliði mótsins Lauri Markkanen frá Finnlandi, Cedi Osman frá Tyrklandi, Jordan Loyd frá Póllandi, Nikola Jokic frá Serbíu og Deni Avdija frá Ísrael.

Því miður náði ekki neinn íslenskur leikmaður í einstaklingsverðlaun að mótinu loknu, en einn leikmanna liðsins bar þó af hvað varðaði tölfræði sína í leikjunum fimm sem Ísland spilaði. Tryggvi Snær Hlinason var sjötti framlagshæsti leikmaður mótsins með 23.8 framlagsstig að meðaltali í leik. Er hann þar á lista fyrir ofan nokkra af þeim sem valdir voru í úrvalslið mótsins, en lang efstur var Luka Doncic leikmaður Slóveníu með 33 framlagsstig að meðaltali í leik.

Tryggvi Snær var einnig ofarlega í öðrum tölfræðiþáttum mótsins. Varði hann flest skot allra á mótinu, 2.4 að meðaltali í leik. Þá var hann annar til þriðji í fráköstum að meðaltali í leik með 10.6 fráköst líkt og Giannis Antetokoumpo frá Grikklandi. Fyrir ofan þá þar var Nikola Vucevic leikmaður Svartfjallalands með 11.6 fráköst í leik.

Þá var hann efstur í tvöföldum tvennum (yfir 10 stig og yfir 10 fráköst) með fjórar í sínum fimm leikjum. Einnig með fjórar tvennur voru Nikola Vucevic frá Svartfjallalandi, Giannis Antetokoumpo frá Grikklandi og Alperen Sengun frá Tyrklandi. Einnig voru hann og Nikola Jokic saman í efsta sæti í tveggja stiga skotnýtingu með 75% nýtingu.

Hérna er hægt að skoða tölfræði mótsins

Hérna er hægt að kjósa Tryggva sem besta leikmann mótsins

Fréttir
- Auglýsing -