Eftir ákveðna sætabrauðsdaga á Eurobasket hér í Katowice þá lentu okkar menn á ansi þétt bökuðu liði Frakka og þrátt fyrir að leikurinn hefði litla sem enga þýðingu fyrir liðin þá slógu Frakkarnir varla feilnótu í fyrri hálfleik leiddu þá þegar með 32 stigum, 66:34. Okkar menn ögn hressari í þeim seinni en líkast til erfitt að stemma sig upp fyrir viðureignina eftir þau högg sem skrokkur liðsins hafði fengið á dögunum. Skemmst frá því að segja þá sigruðu Frakkar nokkuð örugglega 114:74.
Vitað var fyrir fram að þetta franska lið yrði erfiður sperðill að kyngja og um enga valmöguleika æfingu að ræða enda gríðarlega vel mannaðir. Svo vel mannaðir eru Frakkar að þeir þáðu enga neyðaraðstoð frá Bandaríkjunum eins og nokkur önnur lið í mótinu. Jaylen Hoard reyndar á þröskuldinum þar sem faðir hans er amerískur en móðir vissulega frönsk.
Liðið í dag virkaði afslappað, og í raun svo afslappað framan af leik að halda mætti að allir leikmenn væru með ákveðna spöng á herðum sér sem þyngdi þá til muna. Varnarleikurinn frá fyrri leikjum sem hafði legið eins og frunsa á andstæðingunum var lausleg í taumi en á meðan var varnarleikur Frakka nánast vatnsþéttur, kíttaður og sparslaður í hólf og gólf. Ofaní lag þá voru þau færi sem gáfust ekki að detta niður hjá okkar mönnum.
Sóknar megin duttu skot Frakka niður nánast í hverri sókn svo söng í netinu og bergmálið frá netinu í fyrri sókn ómaði enn þegar þeir komu í þá næstu. Frakkar voru að skjóta boltanum tæplega 70% í fyrir hálfleik. Þau skot sem rötuðu ekki niður hjá þeim rifu þeir í flestum tilfellum sóknarfrákast skelltu þá niður tveimur stigum. Okkar menn gengu til hálfleiks líkt og þeir hefðu verið ristilspeglaðir af frönsku hersveitinni og stuðningsmenn í raun jafn gáttaðir og strákarnir á stöðu leiksins.
Seinni hálfleikur var okkar mönnum töluvert náðugri ef svo sé hægt að komast að orði. Frakkar slepptu klónni aðeins þannig að okkar menn náðu að athafna sig örlítið betur. Hinsvegar var þetta aldrei þannig að okkar menn ógnuðu sigri Frakka og silgdu þeir sigrinum örugglega í land sem fyrr segir.
Skondið atvik átti sér stað í seinni hálfleik þegar stærsta nafn þeirra Frakka, Guershon Yabusele ætlaði sér að stela boltanum í langri sendingu Íslands fram völlinn á Hilmar Smára Henningsson. Fór ekki betur en svo að verkfræðin brást honum Yabusele kallinum sem misreiknaði eitthvað þyngd, massa og hraða. Betur fór en áhorfðist þegar rúmlega 250kg skrokkur Yabusele sefndi beint á Hilmar. Endaði þessi óvænti hittingur þeirra félaga í sætum faðmlögum. Villa dæmd og kapparnir brostu báðir af atvikinu.
Af jákvæðum punktum eftir þennan leik þá mætti Ægir Þór Steinarsson til hallarinnar í dag og skartaði huggulegu gullúri sem að félagar hans í landsliðinu gáfu honum deginum áður fyrir 100 leiki hans í landsliðinu Með þessum leik í dag tók Ægir formlega fram úr Jóni Arnóri Stefánssyni og er komin í 101 leik. Þá iljuðu einnig troðslur frá Styrmi Þrastarsyni á síðustu mínútum leiksins.
Karfan.is þakkar landsliðinu í heild sinni fyrir frábært mót ef mögulega sé hægt að taka daginn í dag aðeins til hliðar. Liðið sem og stuðningsmenn gáfu veðjandi spekingum langatöng með frammistöðu sinni á mótinu þó ekki hafi tekist að vinna þann fyrsta á Eurobasket. Það kemur! Við tekur hjá leikmönnum flestum deildarkeppni hingað og þangað um álfuna þó vissulega geti einhverjir þeirra rokið heim og notið restina af íslenska sumrinu í fellhýsi með grillaðar lambalærissneiðar og bauk af köldum……….orkudrykk.



