Íslenska landsliðið mun í dag kl. 12:00 mæta sterku liði Frakklands í lokaleik riðlakeppni lokamóts EuroBasket 2025 í Katowice í Póllandi.
Franska liðið hefur fyrir leik dagsins tryggt sig áfram í 16 liða úrslit keppninnar, en þurfa mögulega sigur til þess að færast ofar í riðlinum þar sem keppni um efstu sæti hans er hörð.
Ísland hefur aftur á móti að litlu að keppa fyrir utan heiður, þar sem tap þeirra gegn Slóveníu á þriðjudag gerði það að verkum að liðið á þess ekki kost að komast áfram í 16 liða úrslitin.
Franska sambandið sendi upphaflega frá sér 12 leikmanna hóp, en í honum voru Theo Maledon, Sylvain Francisco, Elie Okobo, Isaia Cordinier, Matthew Strazel, Zaccharie Risacher, Bilal Coulibaly, Timothe Luwawu-Cabarrot, Guerschon Yabusele, Jaylen Hoard, Alexandre Sarr og Mam Jaiteh.
Smá breyting varð á þessum hópi liðsins rétt fyrir mót þar sem Nadir Hifi kom inn fyrir meiddan Matthew Strazel. Eftir að mótið hófst varð svo ljóst að Alex Sarr myndi ekki taka frekari þátt eftir annan leik liðsins og er hann því einnig frá vegna meiðsla.
Þó er um gríðarlega sterkan hóp að ræða sem nánast allur leikur á hæsta stigi í Evrópu eða í Bandaríkjunum. Stjörnuleikmaðurinn og leiðtogi franska liðsins þó líklega leikmaður New York Knicks í NBA deildinni hinn 29 ára Guerschon Yabusele. Þrátt fyrir að vera ekki gamall er hann nokkuð reynslumikill með liðinu, hafandi farið á fjögur stórmót með liðinu áður.
Það sem af er móti hefur Guerschon verið besti leikmaður liðsins, en fast á hæla hans hafa fylgt, Elie Okobo og Sylvain Fransisco, en fleiri leikmenn liðsins hafa einnig sýnt það og sannað á mótinu að liðið hafi alla burði til að fara langt þó það sé það yngsta á mótinu (25 ára)
Franska liðið hefur í 40 skipti tekið þátt í EuroBasket og í 10 skipti unnið til verðlauna. Síðast unnu þeir gull árið 2013 og á síðasta móti 2022 urðu þeir í öðru sæti eftir að hafa tapað í úrslitaleik gegn Spáni.



