Pólsku fótboltahetjurnar Lukas Podolski og Robert Lewandowski mættu til Katowice í dag til þess að fylgjast með leikjum í D riðil EuroBasket sem leiknir eru í Spodek höllinni.
Lukas er 40 ára gamall og lagði skóna á hilluna árið 2021 lék á sínum tíma aldrei fyrir landslið Póllands þrátt fyrir að vera upphaflega frá borginni Gliwice sem er 25 kílómetra frá Katowice. Fjölskylda hans fluttist til Þýskalands þegar hann var ungur og lék hann því fyrir yngri landslið Þýskalands og seinna 130 leiki fyrir A landslið þeirra, þar sem hann meðal annars varð heimsmeistari 2014.

Robert er hinsvegar aðeins 37 ára gamall og leikur í dag fyrir Barcelona á Spáni. Hann hefur leikið 158 leiki fyrir pólska landsliðið og hefur verið með því síðustu daga í Katowice, en á morgun mæta þeir Hollandi í undankeppni heimsmeistaramótsins.
Sáu þeir meðal annars leik Íslands gegn Slóveníu, en að leik loknum fékk Lukas mynd af sér með einni af stjörnum EuroBasket hinum slóvenska Luka Doncic og skó hans í skiptum fyrir áritaða treyju.




