Ísland mun á morgun mæta Frakklandi í lokaleik riðlakeppni EuroBasket 2025 í Katowice í Póllandi.
Samkvæmt heimildum mun Frakkland vera án eins lykilleikmanns síns og leikmanns Washington Wizards í NBA deildinni Alex Sarr.
Fregnir herma að Alex hafi meiðst á kálfa í öðrum leik Frakklands gegn Slóveníu með þeim afleiðingum að hann muni ekki leika meira fyrir liðið á mótinu, en hann hefur ekkert leikið síðan. Fréttirnar eru nokkuð áfall fyrir franska stuðningsmenn, en í fyrstu tveimur leikjum mótsins var hann með 10 stig og 5 fráköst að meðaltali í leik.
Fyrir mót höfðu aðrir stórir menn liðsins dottið úr hóp franska liðsins af hinum ýmsu ástæðum, Victor Wembanyama, Rudy Gobert, Mathias Lessort, Moustapha Fall, og Vincent Poirier.
Alex Sarr er 20 ára gamall og var valinn með öðrum valrétt nýliðavals NBA deildarinnar á síðasta ári og eru miklar væntingar gerðar til hans. Á sínu fyrsta tímabili í NBA deildinni skilaði hann 13 stigum og 7 fráköstum að meðaltali í leik.



