Slóvenía lagði Ísland í Katowice í dag í fjórða leik liðanna á lokamóti EuroBasket 2025, 79-87. Slóvenía hefur því unnið tvo leiki á mótinu til þessa og eru öruggir áfram í 16 liða úrslitin á meðan Ísland leitar enn að fyrsta sigrinum.
Fyrir leik
Fyrir leikinn hefur Slóvenía unnið einn leik og Ísland engan, því mikilvægt fyrir bæði lið að ná í sigur í dag. Sögulega hefur Ísland ekki oft leikið gegn Slóveníu. Þeir léku þó einusinni gegn þeim, á lokamóti EuroBasket 2017 í Helsinki í Finnlandi. Þá hafði Slóvenía nokkuð öruggan 27 stiga sigur, en þeir héldu áfram að vinna á mótinu eftir leikinn gegn Íslandi og hömpuðu að lokum Evrópumeistaratitlinum.
Ægir Þór Steinarsson var að leika sinn 100. leik fyrir Ísland í kvöld, en það gerir hann jafnan Jóni Arnóri Stefánssyni sem 14. leikjahæsti leikmaður sögunnar. Ferill Ægis með landsliðinu hófst 2012 og spannar hann því 13 ár.
Byrjunarlið Íslands
Martin Hermannsson, Elvar Már Friðriksson, Jón Axel Guðmundsson, Ægir Þór Steinarsson og Tryggvi Snær Hlinason.
Gangur leiks
Íslenska liðið fór betur af stað í leiknum og var það við hæfi að það væri fyrirliði liðsins Ægir Þór Steinarsson sem skoraði fyrstu stigin í leik númer hundrað. Slóvenarnir eru þó ekki langt undan og munar tveimur stigum þegar fyrsti er hálfnaður, 13-11. Leikurinn helst svo nokkuð jafn út fjórðunginn, munurinn eitt stig að honum loknum 20-21.
Slóvenska liðið þó komnir í töluverð villuvandræði á þessum fyrstu mínútum leiksins, þar sem lykilleikmaður þeirra Luka Doncic fékk þrjár villur í fyrsta leikhlutanum.
Ljóst á fyrstu andartökum annars fjórðungs hversu mikilvægur Tryggvi Snær er liðinu. Hann situr á bekknum fyrstu tvær mínútur fjórðungsins og Ísland fær á sig sjö snögg stig. Kári heldur Íslandi þó inní þessu með tveimur þristum er staðan jöfn um miðjan annan fjórðung, 30-30. Þrátt fyrir þrjár villur tekur Slóvenía ekki áhættuna á að hafa Luka á bekknum og er hann kominn aftur inn í leikinn undir lok hálfleiksins. Þeir ná þó ekki að slíta sig frá Íslandi og þegar liðin halda til búningsherbergja leiðir Slóvenía með minnsta mun mögulegum, 35-36.
Atkvæðamestir fyrir Ísland í fyrri hálfleiknum voru Tryggvi Snær Hlinason með 6 stig, 8 fráköst og Martin Hermannsson með 10 stig.
Þeir félagar Edo Muric og Luka Doncic mæta nokkuð velt stilltir inn í seinni hálfleikinn. Ná að skapa smá bil á milli þeirra og íslenska liðsins. Sóknarlega á íslenska liðið einnig í töluverðum vandræðum í þriðja leikhlutanum, nokkrir ljótir tapaðir boltar og boltar sem rúlla af hringnum hjá þeim. Munurinn 14 stig fyrir lokaleikhlutann, 46-60.
Íslenska liðið nær að skera niður forskot Slóveníu niður í sjö stig á fyrstu mínútum fjórða leikhlutans, 59-66. Áfram ná þeir að halda Slóveníu í seilingarfjarlægð og er munurinn aðeins 6 stig þegar fjórar mínútur eru til leiksloka. Þungt högg fyrir Ísland að um það leyti fær Tryggvi Snær sína fimmtu villu og er útilokaður frá leiknum þegar um þrjár eru til leiksloka, munaði um minna, en Kristinn Pálsson mætti inná fyrir hann til þess að leysa stöðu miðherjans knáa. Undir lokin nær Slóvenía svo að sigla leiknum í höfn, en Ísland lætur þá hafa virkilega fyrir því. Niðurstaðan að lokum sigur Slóveníu, 79-87.
Kjarninn
Þetta íslenska lið er löngu hætt að máta sig gegn sterkum þjóðum. Hörkuleikir gegn Belgíu og Póllandi um helgina sem hefðu svo auðveldlega getað dottið með Íslandi og í dag sýndi liðið að það getur fyllilega látið bestu leikmenn heimsins virkilega þurfa hafa fyrir hlutunum.
Atkvæðamestir
Líkt og í öllum leikjum mótsins til þessa var Tryggvi Snær atkvæðamestur í íslenska liðinu, en hann setti 11 stig, tók 14 fráköst, gaf 4 stoðsendingar og varði 3 skot. Þá var Martin Hermannsson einnig frábær fyrir Ísland í dag með 22 stig, 4 fráköst og 6 stoðsendingar. Einnig verður að nefna frammistöðu Jóns Axels í leiknum, sem gerði (þrátt fyrir tölfræðilínu hans, 26/7/4) að gera vel á einum besta leikmanni heimsins Luka Doncic varnarlega, þá setti hann einnig 11 stig og tók 4 fráköst í leiknum.









Hvað svo?
Síðasti leikur Íslands í riðlakeppninni er á fimmtudag gegn sterku liði Frakklands.
Viðtöl væntanleg
Blaðamannafundur eftir leik



