spot_img
HomeLandsliðinEuroBasket 2025Grátlega nálægt því að gera heimamönnum skráveifu

Grátlega nálægt því að gera heimamönnum skráveifu

Pólland lagði Ísland í kvöld í Katowice í þriðja leik liðanna á lokamóti EuroBasket 2025. Með sigrinum tryggði Pólland sig áfram í 16 liða úrslitin, 3-0 á meðan Ísland leitar enn að sínum fyrsta sigri á mótinu.

Fyrir leik

Ísland lék gegn Póllandi í riðlakeppni lokamótsins 2017 í Helsinki og tapaði með 30 stigum, 91-61. Þá mættust liðin nú nýlega, í æfingaleik fyrir yfirstandandi lokamót, en þá hafði Pólland tveggja stiga sigur, 92-90.

Fyrir leik kvöldsins var gengi liðanna nokkuð ólíkt á mótinu. Pólland hafði unnið báða leiki sína á meðan Ísland hafði tapað fyrstu tveimur leikjum sínum.

Byrjunarlið Íslands

Martin Hermannsson, Elvar Már Friðriksson, Ægir Þór Steinarsson, Jón Axel Guðmundsson og Tryggvi Snær Hlinason.

Gangur leiks

Sóknarlega náði íslenska liðið ekki nokkrum takti á upphafsmínútum leiksins. Ekki ólíkt slæmu köflunum í fyrstu tveimur leikjunum var liðið ágætt í að búa sér til skot, en þau hreinlega vildu ekki niður. Íslenska liðið fær þó sterkar innáskiptingar af bekknum og ná í framhaldi að blása smá lífi í sinn leik. Munurinn aðeins þrjú stig að loknum fyrsta fjórðung 19-16.

Þökk sé góðum leik Tryggva Snæs heldur íslenska liðið vel í við heimamenn í upphafi annars leikhlutans og er munurinn enn aðeins tvö stig þegar hann er hálfnaður, 28-26. Þeir ná þó ekki að loka hálfleiknum nógu vel. Gefa alltof margar villur, ná ekki að klára sóknir með skotum og eru varnarlega alltof hægir fyrir pólska liðið sem keyrir trekk í trekk í bakið á þeim. Munurinn 9 stig þegar liðin halda til búningsherbergja, 41-32.

Tryggvi Snær Hlinason verið frábær fyrir íslenska liðið í fyrri hálfleiknum, með 13 stig, 3 fráköst og 2 varin skot. Honum næstur Martin Hermannsson með 4 stig og 3 fráköst.

Í upphafi seinni hálfleiksins missir Ísland heimamenn frá sér. Hóta því að ganga frá leiknum. Virðast geta skorað þegar þeir vilja og nánast ekkert sem Ísland gerir sóknarlega virðist ganga upp. Ná þó að halda þessu í leik undir lok þess þriðja og er munurinn aðeins 10 stig fyrir lokaleikhlutann, 61-51.

Íslenska liðið nær að skera niður forskot heimamanna niður í 5 stig í upphafi fjórða leikhlutans, 64-59. Með þrist frá Elvari Má fer munurinn svo niður í tvö stig, 66-64, þegar rúmar fimm eru til leiksloka. Áfram halda þeir og með troðslu frá Tryggva komast þeir yfir með þrjár eftir, 70-71. Með vítum frá Elvari Má komast þeir svo í sína mestu forystu í leiknum til þessa 3 stig, 70-73, þegar um 3 mínútur eru eftir. Þá koma nokkuð snögg níu stig í röð hjá Póllandi þar sem nokkrir vafasamir dómar fengu að falla og er staðan 79-73 þegar um ein og hálf er til leiksloka. Ísland komst aldrei í takt aftur. Niðurstaðan að lokum óþarflega þægileg fyrir Pólland, 84-75.

Atkvæðamestir

Tryggvi Snær Hlinason var stórkostlegur fyrir Ísland í dag með 21 stig, 10 fráköst, 3 stoðsendingar og 3 varin skot. Þá var Elvar Már Friðriksson með 13 stig og Martin Hermannsson með 10.

Kjarninn

Það var erfitt að gera sér í hugarlund hvernig íslenska liðið myndi mæta til leiks í dag eftir gífurlega þungt tap gegn Belgíu hjá þeim í gær. Mun sterkari andstæðingur sem liðið var að leika gegn í dag. Gerðu hinsvegar ágætlega á löngum köflum og lögðu svo sannarlega aldrei árar í bát. Má segja, slæmu kaflarnir voru bara of slæmir. Vörnin oftar en ekki fín en virtust stíflaðir sóknarlega alltof lengi í leiknum. Jákvætt við þennan leik, kannski, Tryggvi var sem áður mjög góður og þá áttu nokkrir af minni spámönnum liðsins góða innkomu af bekknum, minnistæðastir Kári og Hilmar Smári.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Blaðamannafundur eftir leik

Fréttir
- Auglýsing -