Fyrrum landsliðsmaðurinn Ragnar Nathanaelsson setti nú í dag inn færslu á Facebook hóp stuðningsmanna íslenska landsliðsins á EuroBasket í Katowice í Póllandi.
Eftir að hafa tapað ansi naumlega gegn Belgíu í gær, leikur liðið aftur í kvöld gegn heimamönnum í Póllandi kl. 18:30 að íslenskum tíma.
Í færslunni sem hægt er að lesa hér fyrir neðan segir Ragnar frá viðtali sem hann fór í í slóvenska sjónvarpinu í gær, þar sem þjóðinni var hrósað fyrir að vera jákvæð og peppandi fyrir liðið. Segist hann hann það vera lensku að leyfa sófasérfræðingum heima að vera með neikvæðni og leiðindi á meðan þeir sem fylgja liðinu standi við bakið á því. Segir hann ennfrekar að Evrópa taki eftir því hversu góðan stuðning Ísland.
Þess má geta að í tvígang hefur Ragnar farið á lokamót með Íslandi, 2015 og 2017. Þá var hann einnig í æfingahópi þessa liðs er fór á lokamótið nú.
Færsla Ragnars:
Kæru vinir
Slóvenska ríkissjónvarpið tók viðtal við mig í gær og spurðu, eftir að hafa lýst vonbrigðum þjóðarinnar yfir að hafa tapað fyrsta leik mótsins, hvers vegna við Íslendingar vorum alltaf svona jákvæð og peppandi fyrir liðið? Ég gat litlu svarað nema aðeins því að við látum sófa sérfræðinganna heima sjá um að vera neikvæða og í fýlu, við erum hér til að standa við bakið á liðinu okkar í blíðu og stríðu.
Mig langaði að deila þessu með ykkur því Evrópa er að taka eftir því hvað við erum öll ótrúlega flott. Í kvöld ætlum við að eiga höllina, í þriðja skipið, og sýna Pólverjunum hvernig þetta er gert!
Áfram Ísland
Ykkar, Raggi Nat



