spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaÁrmann semur við danskan leikmann

Ármann semur við danskan leikmann

Það styttist óðum í að Bónus deildin hefjist og liðin að klára að setja saman leikmannahópa þessa dagana. Nýliðar Ármanns tilkynntu fyrr í dag að liðið hefði samið við danskan leikmann Cirkeline Rimdal um að leika með liðinu á komandi leiktíð.

Ármenningar hafa ekki setið auðum höndum í sumar og safnað í öflugt lið. Liðið hefur fengið þær Dzönu Crnac og Sylvíu Hálfdánardóttur til liðsins í sumar auk erlendra leikmanna. Þá hafa lykilmenn endursamið við liðið.

Tilkynningu Ármenninga má finna í heild sinni hér að neðan:

Cirkeline semur við Ármann

Körfuknattleiksdeild Ármanns hefur samið við danska leikmanninn Cirkeline Rimdal fyrir komandi tímabil í Bónus-deild kvenna. Rimdal er 26 ára gömul og uppalin í Køge í Danmörku.

Rimdal hefur leikið með SISU í dönsku úrvalsdeildinni, verið lykilleikmaður í bandarískum háskólaliðum hjá North Dakota State og Eckerd College auk þess að spila á Spáni með ADBA Sanfer. Hún hefur einnig verið hluti af yngri landsliðum Danmerkur og tekið þátt í Evrópumótum. Til gamans má geta að hún lék með Ragnheiði Björk leikmanni Ármanns í Eckerd háskólanum.

„Við erum gríðarlega ánægð með að fá Cirkeline til liðs við okkur,“ segir Karl H. Guðlaugsson þjálfari Ármanns. „Hún býr yfir miklum hæfileikum, góðu skoti og mikilli reynslu sem mun nýtast vel fyrir komandi átök.“

Rimdal mun bætast í hóp leikmanna sem stefna á að gera flotta hluti fyrir Ármann í Bónus-deildinni í vetur. Hún er væntanleg til landsins í byrjun september og mun hefja æfingar með liðinu fljótlega eftir komuna. Einnig mun hún þjálfa yngri flokka hjá félaginu.

Áfram Ármann

Fréttir
- Auglýsing -